N4 logo

Legg til að Útlendingastofnun verði flutt á Suðurnesin

Legg til að Útlendingastofnun verði flutt á Suðurnesin
Birgir Þórarinsson, oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

N4 ritstjórn15.09.2021

„Veirufaraldurinn kenndi okkur á Suðurnesjum að við erum of háð ferðaþjónustunni og fluginu og við þurfum að styrkja stoðir annarra greina, nýsköpun, og smærri fyrirtækja. Það eru góðir hlutir að gerast, t.d. upp á Ásbrú, þar sem hefur sýnt sig að nýsköpun skiptir máli. Ég legg áherslu á að það þarf að styrkja minni fyrirtæki, veita þeim ákveðinn stuðning. Umhverfi fyrirtækjanna sem stjórnvöld setja þarf að vera þeim hagfellt, á það leggjum við áherslu,” segir Birgir Þórarinsson, sem skipar efsta sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Birgir bætir við hann hafi lagt til, til þess að fjölga opinberum störfum á Suðurnesjum, að Útlendingastofnun verði flutt þangað frá höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að Suðurnesin hafi aldrei verið inni í myndinni þegar rætt sé um að flytja opinber störf út á land en því verði að halda til haga að Suðurnesin séu hluti landsbyggðarinar.

Birgir Þórarinsson hefur verið þingmaður Miðflokksins á þessu kjörtímabili. Áður hafði hann setið á þingi í tvígang sem varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn.

Varðandi málefni innflytjenda og hælisleitenda segir Birgir að hann telji nauðsynlegt að marka innflytjendastefnu. „Vegna þess að við sjáum að það mikil aukning í umsóknum um alþjóðlega vernd hér á landi. Að mínum dómi og okkar í Miðflokknum þarf að læra af reynslunni. Það er því miður staðreynd að þetta kerfi er misnotað og það kostar ríkissjóð um 4,4 milljarða á ári. Einn hælisleitandi kostar sex milljónir króna á ári. Ellilífeyrisþegi fær 3,3 milljónir króna á ári frá Tryggingastofnun. Ég set þetta í samhengi vegna þess að það eru fjölmörg dæmi um að það er verið að misnota kerfið og dómsmálaráðuneytið hefur viðurkennt það fyrir okkur í fjárlaganefnd. Ég hef starfað við þennan málaflokk, starfaði erlendis í tvö ár fyrir Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna og þekki því málaflokkinn ágætlega. Ég tel að við getum nýtt fjármunina mun betur, með því að aðstoða flóttamenn á heimasvæðum og þær stofnanir sem sinna flóttamönnum erlendis eins og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Það er ekkert gagnrýnisvert við málflutning okkar í þessum málum því við viljum að það verði fylgt stefnu Norðurlandanna í þessum málaflokki. Þau þekkja þetta mjög vel og við eigum að læra af reynslu þeirra. Það er fyrst og fremst okkar málflutningur hvað þetta varðar,” segir Birgir Þórarinsson.

Hér er viðtalið við Birgi.