Lygilega fyndið að enda úti á landi

Lygilega fyndið að enda úti á landi
Gréta Mjöll Samúelsdóttir, atvinnu- og menningarmálafulltrúi á Djúpavogi, kann lífinu vel fjarri ys og þys höfuðborgarinnar. Mynd: Facebooksíða Gretu Mjallar.

N4 ritstjórn02.08.2021

Greta Mjöll Samúelsdóttir, söngkona og fyrrverandi landsliðskona, ætlaði sér aldrei að flytja frá höfuðborgarsvæðinu. Lengi vel sá hún engan sjarma í því að búa úti á landi. Svo breyttist eitthvað.

„Þú hefðir ekki geta logið því að mér fyrir 10 árum að ég gæti búið úti á landi. Systir mín bjó í Grindavík og ég bara skildi ekki hvað hún var langt í burtu. Þannig að þetta er svolítið fyndið að þetta hafi æxlast svona," segir Greta Mjöll Samú­els­dótt­ir, sem flutti til Djúpavogsfyrir sex árum síðan ásamt manni sínum William Óðni Lefever. Greta Mjöll var í viðtali í þættinum Mín leið og sagði þar frá því hvernig hún endaði sem atvinnu- og menningarmálafulltrúi á Djúpavogi og fleiru.

Hugsunarhátturinn breyttist

Greta Mjöll segir að eftir að hún varð móðir árið 2015 hafi hugsunarháttur hennar breyst. Hún hafi áttað sig á því að barnauppeldið var tímafrekt og hún fór að sjá sjarmann í því að hægja á, búa lengra í burtu frá höfuðborginni þar sem húsnæði væri ódýrara og mögulega væri hægt að leggja fyrir pening. „Svo sáum við ógeðslega fyndna starfsauglýsingu sem einhvern veginn greip augað af því hún var öðruvísi."

Árin orðin sex

Þegar Greta fékk starfið á Djúpavogi, sagði hún upp starfinu sem beið hennar eftir fæðingarorlof í borginni. Maðurinn hennar tók starfsleyfi í eitt ár frá sínu starfi, svo þau voru með eitthvað fast í hendi ef lífið á Djúpavogi hentaði þeim ekki. Greta segir að upphaflega hafi þau hugsað sér að prófa lífið út á landi í eitt til þrjú ár. Nú eru árin orðið sex á Djúpavogi, börnin orðin þrjú og þau eiga hús og fyrirtæki í bænum. Heyra má sögu Gretu alla í meðfylgjandi myndskeiði.