N4 logo

Málar á ferðalögum sínum úti í náttúrunni

Málar á ferðalögum sínum úti í náttúrunni
Sköpunarkraftur Sólveigar kviknar í náttúrunni, í flæði og ró.

N4 ritstjórn18.09.2021

Málverkasýningin „Ró í náttúrunni" stendur nú yfir í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélags Akureyrar . Það er listamaðurinn Sólveig Dagmar Þórisdóttir sem sýnir þar verk sín en hún hefur ferðast víða um Ísland og einnig til Tenerife til að sinna listinni.

„Ró í náttúrunni er þriggja ára vinna mín en öll málverkin eru unnin úti víða um land. Takmark mitt er að næra og sýna einstaklingum mikilvægi þess að næra sig og kunna að vera ein/einn við listsöpun í listsalnum náttúrunni alltaf. Komast þannig út úr vana og ná mun meiri næringu. Þetta kenni ég einnig til áhugasamra," segir Sólveig Dagmar í tilkynningu vegna sýningarinnar.

fjölmiðlar3.jpeg

Málar á ferðalögum sínum

Sólveig Dagmar Þórisdóttir hefur verið starfandi listamaður að Korpúlfsstöðum í Reykjavík frá árinu 2007 til 2020. Hún á langan starfsferil að baki sem myndlistarmaður, grafískur hönnuður og hagnýtur menningarmiðlari. Einnig hefur hún starfað við ökuleiðsögn ferðamanna í yfir tvo áratugi fyrir stærstu ferðaþjónustufyrirtæki Íslands. Hún er jafnframt eigandi Create Iceland – Travel ehf.

Sólveig segist tengja listsköpun sína við sköpunarkraft í ró og flæði í náttúrunni og málar oftast á staðnum á ferðalögum sínum. Hún hefur t.d. ferðast um landið á húsbíl til þess að mála. Þannig segist hún miðla myndlist sinni á áhrifaríkan hátt og sýnir sig jafnframt í vídeóverki við undirbúning málverka sinna. Á þann hátt vill hún sýna hve nærandi það er að vinna í ró og flæði úti, með sér á staðnum. Hægt er að fylgjast nánar með Sólveigu á Facebooksíðu hennar.

Sýningin í Mjólkurbúðinni, sem er sölusýning, stendur yfir til 28. september og er hún opin frá 15 til 18 alla virka daga og um helgar milli kl.14 og 17.