Margt verður til í kvenna höndum

Margt verður til í kvenna höndum
Mynd: Unsplash/

N4 ritstjórn21.09.2022

Hópur kvenna úr kvenfélaginu Einingu í Hvolhreppi opnar  handverkssýningu í Fljótshlíð á laugardag. Sýningin verður einskorður við handverk unnið með nál og verkfærum til sauma. Ætlunin með sýningunni er að sýna hvað þessi litli hlutur sem nálin er hefur haft mikil áhrif á líf okkar allra. 

Á sýningunni má sjá eins margar saumaaðferðir  og finnast í fórum kvenna á svæðinu.Til sýnis verða dúkar með alls konar sporum, púðar, myndir, lampaskermar og sýnishorn af fötum og öðru sem saumað er með saumavél ásamt ýmsu fleiru.
Kvenfélagið Eining Hvolhreppi ákvað á vorfundi sínum að nú skyldi hefja saumaskap til vegs og virðingar og halda veglega sýningu á saumi. Ákveðið var að einskorða sýninguna við handavinnu sem unnin er með nál og kennir ýmissa grasa á sýningunni t.d. dúkar, púðar myndir og lampaskermar. Þá er þar að finna sýnishorn af fötum og öðru sem saumað er með saumavél. Í fréttatilkynningu frá kvenfélaginu segir eftirfarandi um aðdraganda þessarar sýningar:  

 

Þegar við fórum að vinna með þetta þá sáum við hversu víða nálin kemur við sögu í lífi okkar allra . Án nálar væru t.d. fötin okkar sennilega öll ýmist hekluð eða prjónuð, sem er ágætt í sumum tilvikum, en prjónaðar nærbuxur væru kannski ekki svo þægilegar.
Hvernig hefðu formæður okkar getað stoppað í sokka án nálar eða bara saumað sláturkeppi t.d. ? Hvert er markmiðið með svona sýningu? Við ætlum að reyna að vekja áhuga fólks á saumaskap og mikilvægi þess að halda í þennan hluta menningararfs okkar."

 


Sérbás tileinkaður skólahandavinnu

Byrjað var á því að senda bréf til allra félaga í kvenfélaginu og þær beðnar um að kíkja í skápa og skúffur gersemum.  Vel var tekið í beiðnina og safnast mikill fjöldi af alls konar saumaskap. Eru munirnir ótrúlega fjölbreyttir; dúkar, púðar, myndir, fatnaður, skólahandavinna og margt margt fleira. Þegar farið var að skoða skólahandavinnuna sem barst á sýninguna sáu konurnar  hversu fjölbreytt kennsla í hannyrðum hefur verið í skólum áður fyrr. Á sýningunni verður því sérstakur bás með eingöngu slíkri handavinnu. Okkar von er að nú taki við nálaglamur á sem flestum heimilum og við mætum á næstu árshátið í heimasaumuðu. Kannski kallar sýningin á að haldin verði námskeið í einhverjum saumaaðferðum hjá kvenfélögunum og öðrum," segir enn fremur í tilkynningu. 


Sýningin verður í félagsheimilinu Goðalandi í Fljótshlíð og stendur hún frá 24. sept til 9. okt. Opið verður milli kl. 12 og 18 laugardaga og sunnudaga en einnig verðurhægt að taka á móti hópum alla virka daga. Aðgangur er ókeypis.

Deila