Séra Dagur: „Ekki bara kynlíf og runk"

Séra Dagur: „Ekki bara kynlíf og runk"
Dagur Fannar er 29 ára prestur í Heydölum í Breiðdal. /mynd Rakel Hinriks, N4

Rakel Hinriksdóttir04.05.2021

Eru prestar heilagir? Mega þeir tala um og gera hvað sem er? Kynlíf? Runk? Fyrirgefningu? Dagur Fannar Magnússon er 29 ára, en hann var yngsti prestur landsins árið 2019 þegar hann tók við kraganum í Heydölum í Breiðdal. Í næsta þætti af ‘Mín leið’ á N4 spjallar Rakel við hann um starfið, lífið, kynlífsumræðuna í Kirkjucastinu og margt fleira.

„Það er svo langt frá því að prestar þurfi að vera einhverjir bókstrafstrúarmenn. Öfgar í hvora átt sem er geta verið hættulegar,” segir Dagur. Hann heldur úti hlaðvarpinu ‘Kirkjucastið’ með öðrum presti af yngri kynslóðinni, Benjamín Hrafni Böðvarssyni í Austfjarðaprestakalli. „Okkur langaði til þess að ná til yngri markhóps, veit svosem ekkert hvort það hefur tekist,” segir Dagur, en það er óhætt að segja að þættirnir hafi fengið athygli, að minnsta kosti nýlega. Ungu sérarnir fá til sín ýmsa góða viðmælendur og umræðan hefur verið mjög fjölbreytt. Það vakti athygli þegar Gerður Arinbjarnar, eigandi Blush.is settist niður með þeim, en eitthvað fór það fyrir brjóstið á sumum að prestar skyldu taka upp á því að senda út hlaðvarp um kynlíf og sjálfsfróun. „Langflestir voru nú bara glaðir og ánægðir með þetta, en ekki alveg allir. Við vorum að reyna að finna kynlífinu stað innan trúarinnar. Biblían er ekki bókstafleg og við þurfum að túlka,” segir Dagur. Mesta gagnrýnin á hlaðvarpsþáttinn kom sennilega frá öðrum söfnuðum, sem eru meira í bókstafnum, segir hann. „Við fengum alveg gusu yfir okkur, að við værum hórkarlar og saurlífismenn, á leiðinni beint til helvítis.” Dagur hlær að þessu, en hann segir að þetta væri ekkert skemmtileg umræða ef þeir fengju engin viðbrögð, og það er ljóst að hér er á ferðinni ferskur blær innan Þjóðkirkjunnar.

Eitthvað fór það fyrir brjóstið á sumum að prestar skyldu taka upp á því að senda út hlaðvarp um kynlíf og sjálfsfróun.

Sá 'Arkitektinn' í læknisfræðinni

Í þættinum er ekki bara rætt um hlaðvarpsþáttinn umdeilda, en Dagur Fannar hefur skemmtilega sýn á lífið og valdi að flytja úr „geðveikinni í bænum” eins og hann orðar það, til þess að geta hægt á með fjölskyldunni í nánd við náttúruna. Hann hefur ferska sýn á prestastarfið og guðfræðina, en það var í stuttu stoppi í læknisfræði sem hann áttaði sig á því að það hlyti að vera einhver arkitekt á bak við tilveruna.

Ekki missa af ‘Mín leið’ með Degi Fannari, á N4, miðvikudaginn 5.maí kl. 20.00.

Stikla fyrir þáttinn: