Minni verslunarmiðstöðvar í sókn

Minni verslunarmiðstöðvar í sókn
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins, fyrir utan verslunarmiðstöðina Sunnuhlíð á Akureyri en þar eru ýmsar sérverslanir að finna á borð við Vistvænu verslunina, Svarta svani og Aftur nýtt svo fátt eitt sé nefnt.

N4 ritstjórn11.10.2021

Minni verslunarmiðstöðvar eru að koma sterkt inn aftur vegna viðhorfsbreytinga hjá almenningi. Þetta segir forstjóri fasteignafélagsins Regins sem á meðal annars Sunnuhlíð á Akureyri.

„Trendið í þessum verslunarmiðstöðum er að þessar minni stöðvar, sem voru áður aðal verslunarmiðstöðvarnar , þær eru aftur að koma inn og bara nokkuð sterkt. Og það er út af ýmsum ástæðum, t.d. breyting á samfélagslegum aðstæðum. Viðhorf fólks er að breytast og líka viðhorf rekstraraðila. Fólk vill minni einingar , fólk vill raunverulega geta sótt verslun og þjónustu stutt, geta hjólað, gengið og þetta er trend sem er alls staðar í kring um okkur." Þetta segir Helgi S. Gunnarsson forstjóri fasteignafélagsins Regins en fasteignafélagið á mikið af verslunarmiðstöðvum, til að mynda Smáralind, Garðatorg og verslunarmiðstöð í Lóuhólum í Breiðholti.

Öðruvísi verslanir í Sunnuhlíð

Fimm prósent af eignasafni Regins er á Akureyri en félagið á m.a. eignir eins og Hótel Kea, helming af skrifstofuturnunum við Glerárgötu og húsnæðið sem World Class er í. Hvað Sunnuhlíð varðar þá segir Helgi að félagið hafi keypt stórt eignasafn af Íslandsbanka og Sunnuhlíð hafi verið inn í því. „Og við ákváðum hægt og rólega að kaupa okkur meira inn í eignina því við sáum fullt af tækifærum í kringum Sunnuhlíð. Sunnuhlíð er náttúrulega mjög vel staðsett inn í grónu hverfi og á stórri lóð með nægum bílastæðum." Hann segir að Sunnuhlíð bjóði upp á ýmis tækifæri í verslun og þjónustu sem fólk sækir ekki á Glerártorg eða Norðurtanga. „Svona verslunarmiðstöð getur boðið lægri leigu, þannig þú færð kannski öðruvísi leigutaka sem vilja vera að vinna með öðruvísi vörur," segir Helgi sem er bjartsýnn á framtíð félagsins á Akureyri.

Heilsugæsla í Sunnuhlíð?

„Við trúum á Akureyri og að þar sé margt að gerast, og vöxtur framundan. Og við viljum vaxa þar og dafna. Til dæmis þá viljum við efla Sunnuhlíð. Okkur langar t.d. að fá heilsugæslustöðina hingað og sendum inn tilboð út af því. Hér er líka tækifæri á því að þétta byggð, því lóðin er það stór að við gætum byggt íbúðarhús og það gæti farið mjög vel saman við litla verslunarmiðstöð. Til dæmis að bjóða annars konar húsnæði fyrir eldri borgara. Þannig það er margt spennandi framundan. "

Deila