miðvikudagur 29. desember 2021

Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022

Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022
Frá sýningunni Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni.

N4 ritstjórn13.01.2022

Náttúruminjasafn Íslands er komið í úrslit í keppninni um Evrópsku safnaverðlaunin 2022, EMYA-2022. Náttúruminjasafnið er tilnefnt fyrir sýningu sína Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni. Að bakitilnefningunni liggja einnig atriði sem varða faglega starfsemi og framtíðarsýn safnsins.

Í ár keppa 60 evrópsk söfn til úrslita í ýmsum flokkum sem verða kunngjörð í byrjun maí 2022 í Tartu í Eistlandi. Sýningin Vatnið í náttúru Íslands var opnuð í Perlunni 1. desember 2018 og veitir á nýstárlegan hátt innsýn í eina mikilvægustu auðlind landsins, ferskvatnið. Sýningarhönnun var í höndum Þórunnar S. Þorgrímsdóttur. Gagnvirk miðlun í sýningunni var hönnuð og unnin af Gagarín og Art+Com. Sýningin hefur nú þegar hlotið ýmis verðlaun. Gagarín hlaut hin virtu evrópsku Red Dot ,,Best of the best“ verðlaun í flokknum viðmótshönnun og notendaupplifun árið 2019 fyrir þrjú atriði á sýningunni sem hafa jafnframt verið verðlaunuð hjá SEGD Global Design Awards 2019 og tilnefnd til European Design Awards 2019. Sýningin var einnig tilnefnd til Íslensku safnaverðalaunanna árið 2020.

Fjórða tilnefningin sem íslenskt safn hlýtur

Tilnefning Náttúruminjasafns Íslands til Evrópsku safnaverðlaunanna er sú fjórða sem íslensku safni hlotnast. Síldarminjasafnið á Siglufirði vann Evrópuverðlaun safna 2004 sem besta nýja iðnaðarsafn álfunnar; Þjóðminjasafn Íslands hlaut sérstaka viðurkenningu 2006 fyrir endurnýjaða grunnsýningu safnsins og á árinu 2008 var Minjasafn Reykjavíkur tilnefnt fyrir Landnámssýninguna Reykjavík 871±2 í Aðalstræti.