N4 logo

Nýjar leiðir nauðsynlegar í miðlun menningararfsins

Nýjar leiðir nauðsynlegar í miðlun menningararfsins
Skúli Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarstofnunar

N4 ritstjórn13.10.2021

Miðlun menningararfsins er að taka miklum breytingum með breyttri tækni. Farsímakynslóðin vill til að mynda skoða muni í þrívíddar sýndarveruleika. Þetta segir Skúli Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar.

„Þessi misserin er allt á fleygiferð í safnaheiminum og þessum heimi sem er að reyna að miðla menningararfinum okkar. Þó við hér á Íslandi séum stundum framarlega þá finnst mér við stundum líka vera svolítið á eftir í þessu miðað við hvað við stöndum framarlega á tæknisviðinu," segir Skúli og heldur áfram; „Nýjar kynslóðir eru með nýjar væntingar og allt aðrar en fyrri kynslóðir, þannig að þú getur ekki sett sama efni fram með sama hætti og þú gerðir fyrir afa og ömmu kynslóðarinnar sem er að koma upp núna. Þess vegna þarf að nýta nýjustu tækni og alla þá kosti og möguleika sem eru í boði til þess að miðla menningunni á sem spennandi hátt og ná athygli unga fólksins."

Skriðuklaustur í sýndarveruleika

Eitt af stefnumálum Gunnarsstofnunar er að reyna að stuðla að nýsköpun og vera í alþjóðlegu samstarfi. Í því sambandi hefur stofnunin tekið þátt í nokkrum alþjóðlegum verkefnum. „Við erum nýbúin að ljúka einu stóru þriggja ára Norðurslóðaverkefni og vorum í samstarfi við Íra, Skota og Norðmenn þar. Verkefnið snérist um skrásetningu og miðlun menningarminja. Við unnum t.d. þrívíddarlíkan af Skriðuklaustri til forna fyrir sýndarveruleika. Síðan erum við í þremur öðrum verkefnum og leiðum eitt af þeim næstu mánuðina. Þeim líkur öllum á næsta ári og þau snúast öll um þetta að leita nýrra leiða, kynna það sem við höfum verið að vinna í öðrum verkefnum, bæði til þess að miðla menningararfinum en líka til þess að draga athyglina að honum. "

Farsíminn er töfrastokkur

Skúli sagði nánar frá nýjum leiðum í miðlun menningararfsins í þættinum Að austan á N4 en farsíminn kemur þar að miklu gagni. „Ég kalla farsímann töfrastokk. Því í sambandi við skrásetningu og miðlun þá er síminn ekkert annað en töfrastokkur því þú getur farið með hann út á vettvang og gert alls konar mælingar og myndatökur. Síðan ertu kominn með efni sem þú getur svo miðlað til fólks sem er statt nær og fjær. "