laugardagur 13. nóvember 2021

Óskað eftir nýsköpunarhugmyndum fyrir ull

Óskað eftir nýsköpunarhugmyndum fyrir ull
Jóhanna Erla Pálmadóttir, verkefnisstjóri Textílmiðstöðvar Íslands, hvetur áhugasama til þess að taka þátt í Ullarþoninu og skapa þannig meiri verðmæti úr ullinni.

N4 ritstjórn19.03.2021

Nýsköpunarkeppnin Ullarþon fer fram dagana 25. -29.mars. Markmið keppninnar er að ýta undir nýsköpun og vöruþróun úr annars flokks ull. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir bestu hugmyndirnar.

„Við höfum engar áhyggjur af bestu ullinni vegna þessa að hún fer öll í prjónaband. En þeir flokkar sem ekki fara í bandið eru að mestu leiti fluttir út í gólteppagerð erlendis. Við erum með þessu að reyna að vekja athygli á ullinni og verðmætasköpun hennar og líka minnka þetta kolefnisspor sem allir hafa áhyggjur af og nýta ullina meira hér heima," segir Jóhanna Erla Pálmadóttir, verkefnisstjóri Textílmiðstöðvar Íslands. Miðstöðin stendur fyrir nýsköpunarkeppninni Ullarþon ásamt Nýsköpunarmiðstöð Íslands en verkefnið er styrkt af Framleiðnisjóði Landbúnaðarins. Jóhanna Erla var í viðtali í þættinum Að Norðan og sagði þar nánar frá keppninni og tilgangi hennar.

Keppt í fjórum flokkum

Keppnin er haldin á netinu og er ætlað að ýta undir nýsköpun og vöruþróun varðandi verðminnstu ullarflokkana. Keppt verður í fjórum flokkum: Þróun á vinnslu textíls úr óunninni ull, Blöndun annarra hráefna við ull, Ný afurð og Stafrænar lausnir og rekjanleiki. Hægt er að skrá sig í keppnina sem teymi eða sem einstaklingur en skipuleggjendur óska eftir sem breiðustum hópi þátttakenda. „Miðað við viðbrögðin hjá þeim sem þegar hafa skráð sig í keppnina eru gríðarlega margar hugmyndir á sveimi og verður gaman að sjá hvað kemur út úr þessu," segir Jóhanna Erla. Fimm efstu hugmyndir í hverju flokki verða valdar til að komast áfram en heildarverðmæti vinninga er um 1,6 miljón krónur. Nánari upplýsingar um keppnina er hægt að nálgast á Facebookar síðunni “Ullarþon” eða á heimasíðu Textílmiðstöðvarinnar.