N4 ritstjórn12.06.2022
Á Bryggjunni við Slippinn á Akranesi er búið að setja upp dýfingarpalla og trampolín. Það er fyrirtækið Hoppland sem býður þar upp á hopp í sjóinn og námskeið fyrir krakka.
„Þetta er til á öllum Norðurlöndunum, okkur fannst vanta að koma þessu heim," segir Konni Gotta sem stendur á bak við fyrirtækið Hoppland ásamt kærustunni Jódísi Lilju Jakobsdóttur. Parið hefur í mörg ár haft áhuga á alls kyns hoppum og klifri. „Fyrsta deitið okkar var að hoppa í sjóinn," segir Konni.
-En hvernig byrjaði þessi áhugi?
„Ég er frá Ólafsfirði og þar er maður ekkert að fara í bíó eða svoleiðis, en maður getur farið að hoppa af skipum, " segir Konni.
Krakkar sigrast á lofthræðslu og kvíða
Hoppland er með dýfingarpalla í mismunandi stærðum og trampolín. Blautgallar eru í boði fyrir gesti og svo er bara að hoppa í sjóinn. Þá er hægt að skella sér í heitan pott á bryggjunni á eftir.
„Við erum með námskeið þar sem krakkar fá að sigrast á lofthræðslu, kvíða og alls konar svoleiðis veseni."
Þátturinn Að Vestan kíkti í heimsókn og prófaði þessa skemmtilegu afþreyingu sem verður án efa vinsæl í sumar. Sjá myndbrotið hér fyrir neðan.