Öðruvísi baðupplifun á köldu svæði

Öðruvísi baðupplifun á köldu svæði
Hugmynd að því hvernig baðstaður við Krossavík gæti litið út.

N4 ritstjórn12.09.2022

Áhugi er fyrir því að koma upp baðstað við Krossvavík á Hellissandi. Baðstaðurinn gæti haft mikið aðdráttarafl bæði fyrir ferðamenn sem og heimafólk, en með tilkomu hans yrði Krossavíkin aðgengilegra útivistarsvæði. 

Hópur fólks sem hefur hug á að koma upp sjóböðum í Krossavík á Hellissandi reikna með því að sjóböð í nálægð við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul hafi mikið aðdráttarafl fyrir ferðalanga, en ekki síður er gert ráð fyrir að reksturinn höfði til heimamanna.  Kári Viðarson eigandi Frystiklefans á Rifi sagði betur frá hugmyndinni í þættinum Að Vestan á N4. Þar kom fram að hugmyndin hafi upphaflega kviknað út frá áhuga Kára á að koma aftur lífi í ónotaðar byggingar á svæðinu. 

 

Vildi endurvekja sundlaugina á staðnum

Upphaflega hugmyndin mín var að nota gamla íþróttahúsið á Hellisandi í þetta af því að þar er sundlaug undir gólfinu. Mig langaði að nota sundlaugina aftur og kannski bara setja sjó í hana í stað vatns og svo vinna út frá því. Það var upphaflega hugmyndin. Ég sótti um hugmyndastyrk  og þá kom inn í þetta viðskiptaráðgjafinn Páll Kr. Pálsson sem hefur verið með mér í verkefninu síðan. Við fórum að velta upp þessum möguleika og smá saman fórum við að þróa þessa pælingu og enduðum út í Krossavík  með nýjan baðstað," segir frumkvöðulinn Kári  sem er einn þeirra sem stendur á bak við verkefnið. 

 

krossavik sjobod.JPG

Í Krossavíkinni er allra veðra von sem gefur fjölbreytta upplifun. 

 

Önnur baðupplifun

Kári viðurkennir að baðstaðurinn sé stór áskorun þar sem hann er staðsettur á köldu svæði og líklega margir sem telji þessa hugmynd alveg galna. Kári segir að það þurfi  að reikna  vel út hvað sé hægt að gera miðað við það að vera á köldu svæði. Þá segir hann að hægt sé að nýta kalda vatnið meira og bjóða þannig upp á annars konar upplifun heldur en þekkist á öðrum sambærilegum baðstöðum.  Það eru alltaf að koma upp nýjar og nýjar aðferðir og tæknilausnir. Þetta er ekki eins dýrt og það var fyrir 20 árum," segir Kári varðandi upphitun á köldu vatni.  

 

Heitir og kaldir pottar og sjósund

Í lýsingu á verkefninu segir að í Snæfellsbæ sé  í gildandi aðalskipulagi gert ráð fyrir vaxandi ferðamannastraumi á komandi árum. Baðstaðir í íslenskri náttúru hafa notið stóraukinna vinsælda á liðnum árum. Ekki er slíkum baðstöðum fyrir að fara í Snæfellsbæ, en sundlaugar eru í Ólafsvík og á Lýsuhóli. Hópur sem hefur hug á að koma upp sjóböðum í Krossavík hefur látið gera forhönnun mannvirkja þar sem gert er ráð fyrir einföldum og nettum húsakosti, mis heitum og köldum pottum og sjósundi. Einnig hefur verið gerð kostnaðaráætlun og rekstrarhæfni hefur verið metin. Niðurstöður gefa tilefni til bjartsýni. 

 

Viðtalið við Kára má sjá í heild sinni hér fyrir neðan. 

 

 

 

 

Deila