Páfuglar í Listagilinu á Akureyri

Páfuglar í Listagilinu á Akureyri

N4 ritstjórn22.06.2022

Listakonan María Manda opnar málverkasýninguna Páfuglar/Smásögur í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins í Listagilinu á Akureyri í dag. 

Sýningin Páfuglar/Smásögur eru 13 frásagnir um ólíka páfugla. Í fréttatilkynningu um sýninguna segir: Skrautlegt útlit páfuglsins segir ekki alltaf til um hvernig honum líður, lifir eða nærist. Það er áhorfandans að skilja sögu páfuglsins og gefa henni líf. Lundinn er smár en skrautlegur „Páfugl“, trúr maka sínum en tekur áhættur, lifir djarft og er hugrakkur eins og Beta, Jóna og Aldís, fósturlandsins Freyjur, mæður, konur, meyjur." 

 

Húmorískur undirtónn

María Manda er hönnuður og hefur sótt myndlistarkennslu hjá ýmsum listkennurum. Hún hefur fengið viðurkenningar fyrir hönnun sína og haldið einkasýningar bæði í hönnun og myndlist og tekið þátt í mörgum samsýningum. Manda vinnur að mestu fígúrutíf verk, oft með húmorískum undirtón í olíu á striga. Hún rekur Gallerí ART67 í Reykjavík í samstarfi við aðrar listakonur og er með vinnustofu að Korpúlfsstöðum.

Sýningin verður formleg opnuð milli kl. 17 og 20 þann 22. júní og verða léttar veitingar í boði. Sýningin stendur til 5. júlí og er opið alla daga frá kl. 11 til 17.

 

Deila