Peningar, hreyfingarleysi og flug í Vísindaskóla unga fólksins

Peningar, hreyfingarleysi og flug í Vísindaskóla unga fólksins
Nemendur í Vísindaskólanum árið 2017 Mynd: visindaskolinn.is

N4 ritstjórn09.06.2022

Vísindaskóli unga fólksins verður starfræktur í sjöunda sinn á Akureyri nú í júní. Enn eru nokkur pláss laus en skólinn er ætlaður fyrir 11-13 ára krakka. Peningar, flugviskubit og hreyfingarleysi er meðal þess sem Vísindaskólinn tekur fyrir í ár. 

Vísindaskóli unga fólksins er fyrir áhugasöm og fróðleiksfús ungmenni á aldrinum 11-13 ára (fædd árin 2009, 2010, 2011). Markmið Vísindaskólans er að bjóða aldurshópnum upp á fræðandi og skemmtilega afþreyingu. Skólinn stendur yfir í viku dagana 20. til 24. júní.  Eins og venjulega eru fimm þemu í boði og fáungmennin að kynnast fimm þemum, einu þema á hverjum degi, sem endurspegla  fjölbreytt námsframboð Háskólans á Akureyri.  Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þemu ársins í ár. 

 

 

 

Peningavit og réttur barna
Hvað kostar það að vera til? Hver borgar? Hvað getur unga fólkið gert til þess draga úr eigin rekstrarkostnaði? Hvað gerir umboðsmaður barna? Hvers vegna þurfa börn umboðsmann? Hvernig nær maður sambandi við umboðsmanninn?

 

Í skóginum stóð kofi einn
Er það satt að það hafi verið skógur um allt í gamla daga? Hvað er tré lengi að vaxa? Hvernig ræktum við skóg og til hvers? Hvað er hægt er gera með tré annað en að horfa á þau? Listsköpun úr efnum úr náttúrunni.

 

Að glíma við hreyfingarleysi
Við eigum bara einn líkama. Hvað þurfum við að passa. Hvað gerist ef við hreyfum okkur ekki nóg? Hvernig vinna liðamót og af hverju fáum við bakverki? Vöðvar, sínar, taugar og samspil taugakerfis og hreyfingar. Ert þú gæðablóð? Gamlar íþróttir og nýjar. Glíma.

 

Mál og myndir
Hvernig getum við leikið okkur með tungumálið? Hvað eru til mörg tungumál í heiminum? Er flókið að búa til ljóð? Stuðlar og höfuðstafir, hvað er nú það? Búum til sögu og breytum henni í stuttmynd. Klippiforrit og myndmál. Hvers konar tungumál er myndmál?

 

Að fljúga eins og fuglinn
Hvenær lærði fólk að fljúga? Hvers vegna getur þung flugvél haldist á lofti en ekki við? Eigum við að hafa flugviskubit? Hvaða orku er hægt að nota til þess að fljúga um loftin blá? Íslenska flugsaga í eina öld.


 

Deila