Píluíþróttin slær í gegn á Grenivík

Píluíþróttin slær í gegn á Grenivík

N4 ritstjórn14.11.2022

Píla er íþrótt sem er í hröðum vexti á Grenivík eftir að íþróttafélagið Magni stofnaði þar  píludeild  í byrjun árs 2022 og kom sér upp flottri æfingaaðstöðu.  Nú þegar er um 10% íbúa sveitarfélagsins skráðir í píludeildina.  

Þátturinn Að norðan á N4 heimsótti nýlega aðstöðuna og ræddi þar við píluþjálfarann Björn Andra Ingólfsson. Sagði hann að píluaðstaðan á Grenivík hefði fengið mjög góðar viðtökur frá heimamönnum en þegar píludeildin var stofnuð var runnið svolítið blint í sjóinn með áhugann á íþróttinni því ekki voru margir að stunda pílu í þorpinu þegar aðstaðan opnaði. Það hafi hins vegar heldur betur breyst núna. 

 

Pílukast valgrein í grunnskólanum

Björn Andri segir  að píluíþróttin sé frábær vetraríþrótt  þar sem  hún er spiluð innandyra og hentar öllum aldurshópum og getustigum. Þá er bæði hægt að spila hana sem einstaklingur og í hóp. Um helgar hefur verið boðið upp á krakkaopnanir þar sem ungmennum í sveitarfélginu hefur verið boðið að koma og kasta. Þá er pílukastið einnig orðið að valgrein í grunnskólanum. Íþróttafélagið sér einnig fyrir sér að aðrir en heimamenn geti nýtt aðstöðuna, t.d. gætu starfsmannahópar á Norðurlandi heimsótt Grenivík, leigt salinn og skellt sér í pílu. 

 

Viðtalið við Björn má sjá í heild sinni hér að neðan. 

 


 


 

Deila