miðvikudagur 29. desember 2021

Prjónað í skammdeginu

Prjónað í skammdeginu
Mynd: Unsplash /Ursula Castillo

N4 ritstjórn07.01.2022

Íslenska þjóðin hefur prjónað sig í gegnum skammdegið í mörg hundruð ár. Hér er listi yfir nokkrar nýlegar bækur sem gefa prjónaglöðum hugmyndir að nýjum prjónaverkefnum á nýju ári.

Sokkar í nýju ljósi

Hélène Magnússon sendi frá sér prjónabókina, Sokkar frá Íslandi, fyrir jólin en áður höfðu komið út eftir hana bækurnar Rósaleppaprjón nýju ljósi og Íslenskt prjón. Í bókinni endurvekur Hélène sokkahefðir á Íslandi og gefur þeim nýtt líf. Bókin segir sögu sokkaprjóns á Íslandi og er það bæði heillandi og hrífandi hvernig einfalt sokkapar getur afhjúpað brot úr daglegu lífi Íslendinga. Bókin inniheldur 17 sokka-uppskriftir með sterkum íslenskum blæ. Hélène sótti innblástur í gamla íslenska sokka, eldgamlar uppskriftir en einnig í hefðbundna íslenska vettlinga. Sokkarnir koma í mörgum stærðum og fjölbreyttum afbrigðum af hælum og tám. Þeir voru prjónaðir með Kötlu Sokkabandi úr sérvalinni íslenskri lambsull, sem Hélène hannaði beinlínis fyrir sokkaprjón.

helene-forsida.jpg

Prjónað fyrir útivistina

Í bókinni Ljúflingar á ferðalagi eru uppskriftir af fallegum prjónaflíkum handa athafnasömum fjölskyldum á ferðalögum. Hér eru þunnar og þykkar peysur, húfur, sokkar, sessa og margt fleira. Uppskriftirnar eru á börn og fullorðna , bæði auðprjónaðar og flóknari flíkur. Hanne Andreassen Hjelmås og Torunn Steinsland eru konurnar á bak við netverslunina og instagram síðuna KlompeLOMPE. Þær hanna flíkurnar og þróa uppskriftirnar saman og Hanne tekur allar myndirnar. Hanne og Torunn hafa gefið út margar prjónabækur.

ljuflingar_prjonabok.jpg

Lopapeysur fyrir alla

Í Lopapeysubókinni er kennt á einfaldan hátt að prjóna lopapeysu og þar eru uppskriftir fyrir börn frá sex mánaða aldri og upp í stærðir fyrir fullorðna. Í bókinni er margs konar fróðleikur um prjónaskap, lopa sem hráefni, samsetningu lopalita, frágang og mismunandi útfærslur á íslensku lopapeysunni. Bókin hentar bæði byrjendum í lopapeysuprjóni og þeim sem eru lengra komnir, og er einnig tilvalin fyrir þá sem vilja taka þátt í að móta þessa arfleifð og skapa sínar eigin útfærslur. Höfundur er Gréta Sörensen sem hefur áður sent frá sér Prjónabiblíuna.

lopapeysubokin.jpg