Rangt að koma svona fram við börn

Rangt að koma svona fram við börn

N4 ritstjórn22.07.2022

Cynthia Anne Namugambe flutti með móður sinni frá Uganda til Íslands 10 ára gömul. Líf hennar í Uganda var litað af barsmíðum í heimavistarskóla sem rekinn var af nunnum. Á Íslandi tók við önnur tilvera sem hefur þó ekki alltaf verið auðveld. 

Þegar maður elst upp í svona umhverfi veit maður ekki að það er rangt að koma svona fram við börn og ég skildi ekki að það væri ekki í lagi fyrr en ég kom hingað til Íslands” . Þetta segir  Cynthia Anne Namugambe flutti með móður sinni frá Uganda til Íslands 10 ára gömul. Þá hafði hún aðeins einu sinni séð hvíta manneskju, stelpu sem var þremur árum eldri í sama grunnskóla.
 

Lamin 5 ára í heimavistarskóla

Cynthia Anne bjó ásamt móður sinni í höfuðborginni Kampala en pabbi hennar fórst í slysi stuttu áður en hún fæddist og því var hún alin upp hjá einstæðri móður. Mamma vann á tveimur spítölum og ég var mjög mikið með henni í vinnunni en fór svo 5 ára í heimavistarskóla, bæði til að komast í skóla en einnig upp á öryggið”. Skólinn var rekinn af nunnum, þar var mjög strangur agi en auk þess er leyfilegt í Úganda eins og víðar, að lemja börn í skólum og á heimilum fyrir það sem telst vera óhlýðni. Cynthia hafði ekki vanist því heimavið svo það var mikið áfall fyrir hana þegar hún var lamin í fyrsta sinn fyrir eitthvað sem hún skildi ekki að væri óhlýðni. Þegar ég kom inn 5 ára gömul skildi ég ekki afhverju ég var lamin, ég vissi ekki hvað ég hafði gert rangt og það tók mikið á að sætta sig við að vera lamin og það braut mig niður”. Börnin voru vakin klukkan 5 á morgnana til að fara í kirkju í tvo klukkutíma. Þar á eftir fóru þau hvert og eitt til prestsins til að játa syndir sínar. Yfirleitt í kennslustundum voru prik í horninu,
reglurnar voru að við áttum að koma vel klædd, vel undirbúin og hafa hljótt. Ef einhver gerði þetta ekki var hann tekinn upp að töflunni og laminn, ýmist bara með berum höndum eða belti en mismunandi eftir kennurum.“ Cynthia segist hafa lært mjög mikið, til dæmis lærði hún að þvo skólabúninginn sinn strax fimm ára, hvern sunnudag.
 

Leið eins og í dýragarði

Cynthia var fimm ár í þessum heimavistarskóla en þá breyttist líf hennar mikið. Mamma hennar fór í skiptivinnu til Íslands og leist henni mjög vel á lífið og tækifærin hér. Hún kynntist Sveinbirni Benediktssyni bónda á Brúnavöllum í Austur Landeyjum og fór út og sótti Cynthiu. Ég hefði ekki getað fengið betri föður, hann studdi mig í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og sýndi mér mikið traust, hann hafði alltaf svo mikla trú á mér og var svo stoltur af okkur mömmu. Það var samt erfitt að upplifa að það þætti öðruvísi að vera ekki með hvítt hörund," segir Cynthia. „Ég skildi það ekki því við erum öll með húð, hjarta, heila og blóð þó við séum ekki öll með eins hörund. Fólk kom til okkar fyrstu mánuðina til að skoða okkur mömmu, taka myndir af okkur og mér leið eins og ég væri í dýragarði. En pabbi hjálpaði mér mikið að taka þetta ekki of nærri mér. Þá þótti mörgum krökkum í skólanum mínum skrýtið að pabbi væri miklu eldri en mamma, það truflaði mig ekki fyrr en þau fóru að tala um það” segir Cynthia. 

 

uganda.JPG

Cynthia kemur frá Uganda en hefur búið á Íslandi síðan hún var 10 ára. 

 

Stefnir á læknisnám

Cynthia gerði allt til að geta klárað grunnskólann ári fyrr og komast norður í Menntaskólann á Akureyri í nám. Pabbi hennar lést úr krabbameini mánuði eftir að hún hóf nám við skólann sem var henni mikið áfall. Hún segist staðráðin í að standa sig vel og stefnir á að verða læknir og gera góða hluti í framtíðinni. „Ég er mjög spennt fyrir framtíðinni og hlakka til að geta sagt - pabbi ég náði þessu, ég komst þangað sem ég lofaði að ætla að gera” segir Cynthia Anne Namugambe að lokum.

 

Cynthia var í viðtali í þættinum Þegar á N4 og má sjá viðtalið við hana í heild sinni hér fyrir neðan eða í Safni Símans.

 

 

 

 

 

 

Deila