Rithöfundur opnar kaffihús í Hofi

Rithöfundur opnar kaffihús í Hofi
Silja er Akureyringur sem er flutt aftur norður til þess að reka kaffihús í menningarhúsinu Hofi. Hún hefur fengist við bókarskrif og gaf nú síðast út Lífsbiblíuna ásamt vinkonu sinni Öldu Karen.

N4 ritstjórn10.06.2021

Kaffihúsið BARR er nýtt kaffihús í Menningarhúsinu Hofi sem opnar formlega í dag, 10.júní. Þar verður lögð áherslu á gæðakaffi frá Te & Kaffi, gómsætt brauðmeti úr héraði, náttúruvín og vandaði þjónustu. Fallegt sjávarútsýni setur svo punktinn yfir i-ið.

Það er Silja Björk Björnsdóttir sem ræður ríkjum á BARR en hún hefur mikla reynslu úr kaffi- og þjónustugeiranum, auk þess sem hún er menntaður kvikmyndafræðingur og hefur líka skrifað tvær bækur. Silja er Akureyringur en hún er nýflutt aftur norður eftir 8 ára búsetu í Reykjavík. Hún var í viðtali nýlega í Föstudagsþættinum á N4 og þar sagðist hún hlakka mikið til þess að takast á við kaffirekstur í Hofi.

Náttúruvín og súrdeigsbrauð

Ýmiss konar veitingarekstur hefur verið í Hofi undanfarin ár en að sögn Silju þá hentar húsnæðið líklega betur undir kaffihúsarekstur og þess vegna var ákveðið að fara í þá átt. Segir hún að það verði létt og skemmtileg stemming á staðnum sem vonandi laði fólk í Hof. Segist hún ætla að bjóða upp á allskonar nýjungar eins og kraftbjóra og náttúruvín. Þá verður hægt að fá súpur og súrdeigsbrauð á staðnum. Þá sagðist Silja ekki ætla að breyta því sem fyrir væri á staðnum, hún myndi kannski koma með einhvern gróður en ekkert dúllerí eins og hún orðaði það í viðtalinu.

Viðtalið við Silju Björk má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.