Sigla um Jökulsárlón á rafmagni

Sigla um Jökulsárlón á rafmagni
Mynd: Facebooksíða/Ice lagoon

N4 ritstjórn24.11.2022

Orkuskipti eru hafin hjá fyrirtækinu Ice lagoon ehf sem býður upp á bátferðir um Jökulsárlón. Fyrirtækið er nú á lokametrunum að útbúa sérútbúinn slöngubát sem knúinn er áfram af 100% rafmagni. 

Fyritækið Ice lagoon ehf var stofnað árið 2011 af rafvirkjamenntuðum heimamanni úr Suðursveit með það að markmiði að bjóða ferðir á Jökulsárlóni upp að jökulrönd Breiðarmerkurjökuls á sérútbúnum slöngubátum knúna áfram á 100% endurnýjanlegri orku.  Allt frá stofnun fyrirtækisins hefur verið unnið ötullega að því að finna lausnir til þess að knýja báta fyrirtæksins á endurnýjanlegri orku en fram til þessa þá hafa bátar fyrirtæksins verið knúnir áfram á hefðbundu jarðefnaeldsneyti. Margar áskoranir hafa fylgt þessari vegferð í orkuskiptum á sama tíma og aðrar stórar áskoranir hafa verið í rekstri fyrirtæksins.

 

Bátsferð á rafmagsbát

En nú er sú framtíðarsýn sem fyrirtækið var stofnað á fyrir um 12 árum síðan, loks að verða að veruleika, en fyrirtækið er á lokametrunum með að vera tilbúið með sérútbúinn slöngubát sem er knúinn áfram af 100% rafmagni. Þetta segir í tilkynningu frá fyrirtækinu á Facebook. Þar segir jafnframt;  Þegar við hefjum aftur siglingar næsta vor þá munu okkar viðskiptavinir eiga kost á því að fara í bátsferð á rafmagnsbát um ævintýraveröld Jökulsárlóns án mengunar af völdum útblásturs og án hljóðmengunar. Þetta er fyrsta skrefið en á sama tíma það stærsta í orkuskiptum fyrirtæksins að okkar mati. Næstu vikur munu fara í prófanir á bátnum og ef allt gengur upp þá munum við í framhaldi hefja þá vinnu að rafvæða alla farþegabáta fyrirtæksins með sama hætti. Þá mun Ice Lagoon ehf í náinni framtíð eingöngu bjóða upp á bátsferðir um Jökulsárlón knúnar áfram á 100% innlendri endurnýjanlegri orku. Við hjá Ice lagoon erum mjög spennt fyrir framtíðinni því hún verður rafmögnuð."

Deila