Sjóðheitt umræðuefni: Hvernig á að moka vegi utan þéttbýlis?

Sjóðheitt umræðuefni: Hvernig á að moka vegi utan þéttbýlis?
Mokstur á þjóðvegum er málefni sem fólk á landsbyggðinni hefur mikinn áhuga á. Mynd: Unsplash/Xu Haiwei

N4 ritstjórn22.02.2021

Þeir sem hafa áhuga á að koma skoðunum sínum á vetrarþjónustu Vegagerðarinnar á vegum utan þéttbýlis á framfæri ættu að taka þátt í morgunfundi Vegagerðarinnar sem fram fer í dag. Á fundinum, sem verður streymt, verður fjallað um málið út frá ýmsum hliðum og er markmiðið að fá fram sem flest sjónarmið.

Morgunfundurinn þar sem fjallað verður um vetrarþjónustu Vegagerðarinnar á þjóðvegum landsins frá ýmsum hliðum verður haldinn í streymi þriðjudaginn 23. febrúar milli kl. 09:00 og 10:15. Á heimasíðu Vegagerðarinnar er tilkynning um málið og þar segir m.a: Stöðugt er kallað eftir aukinni þjónustu við vegakerfið að vetri. Atvinnusókn á landsbyggðinni hefur breyst og fólk sækir í meiri mæli vinnu milli bæjarfélaga. Þessi samfélagsbreyting kallar á aukna þjónustu við vegakerfið. Miklu skiptir einnig að afurðir og vörur komist klakklaust milli landshluta, þrátt fyrir hálku og fannfergi. Vegagerðin sinnir vetrarþjónustu á stórum hluta vegakerfis landsins utan þéttbýlis. Þessum morgunfundi er ætlað að útskýra hvernig vetrarþjónustan fer fram og fá fram fleiri sjónarmið á þá þörf sem er fyrir vetrarþjónustu í þjóðfélaginu.

Opinn öllum og hægt að spyrja

Á heimasíðu Vegagerðarinnar má sjá dagskrá fundarins en honum verður streymt á eftirfarandi slóð: https://livestream.com/accounts/5108236/events/9533990 . Hægt er að spyrja spurninga í gegnum síðuna Sli.do með því að slá inn kóðann: #vetur