N4 logo

Stærsta málið að koma á vinstrisinnaðri félagshyggjustjórn

Stærsta málið að koma á vinstrisinnaðri félagshyggjustjórn
Guðmundur Auðunsson, oddviti Sósíalistaflokksins í Suðurkjördæmi.

N4 ritstjórn16.09.2021

„Ég hef ávallt haft mikla réttlætiskennd og talið mig vera sósíalista alveg frá því ég man eftir mér. Ég var virkur í ungliðahreyfingu Alþýðubandalagsins og einnig í stúdentapólitíkinni þegar ég var í stjórnmálafræði hjá m.a. Ólafi Þ. Harðarsyni og Ólafi Ragnari Grímssyni. Þegar ég fór erlendis dró ég mig út úr pólitíkinni en fylgdist auðvitað vel með. Þegar Vinstri græn voru stofnuð gerðist ég stofnfélagi og fór í framboð fyrir flokkinn 2009 á Reykjanesi og 2013 á Suðurlandi. Innan Vinstri grænna var alltaf svolítil framsóknarmennska sem fór í taugarnar á mér. Þegar síðan Vinstri græn ganga í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum tel ég það hafa verið svik við kjósendur og því yfirgaf ég flokkinn. Þegar Sósíalistaflokkurinn kom fram taldi ég mig vera búinn að finna minn rétta farveg, ég taldi þetta vera akkúrat flokkinn sem ég hafði verið að bíða eftir,“ segir Guðmundur Auðunsson, hagfræðingur og oddviti Sósíalistaflokksins í Suðurkjördæmi.

Guðmundur segir rangt að Sósíalistaflokkurinn vilji að allt sé á hendi ríkisins. „Það sem við teljum mjög mikilvægt er að náttúruauðlindir séu í forsjá ríkisins og að fólkið njóti ágóðans af þeim. Við viljum gera róttækar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem við teljum að hafi skapað gífurlega auðsöfnun á fárra hendur. Við teljum að náttúruleg einokun, til dæmis í orku, eigi að vera á hendi ríkisins. Við teljum að fjármálakerfið eigi að vera, að minnsta kosti að hluta til, á vegum ríkisins, annars er hætt við að við missum lykilþætti í samfélaginu úr höndunum á okkur eins og er til dæmis að gerast með kortaþjónusturnar sem er verið að kaupa af erlendum spekúlöntum. Hins vegar finnst okkur eðlilegt að lítil og millistór fyrirtæki starfi áfram og teljum að þau geti verið drifkraftur fyrir samfélagið. Þess vegna viljum við gera vel við millistór fyrirtæki og lækka hjá þeim skatta en hækka skatta á stórfyrirtæki.“

Guðmundur telur að Sósíalistaflokkurinn hafi haft áhrif á kosningabaráttuna með því að toga umræðuna lengra til vinstri. „Sósíalistar eru tilbúnir að taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðum, hvort sem það er að styðja við bakið á minnihlutastjórn eða taka þátt. Auðvitað munum við selja okkur dýrt því við erum með stefnumál sem við munum leggja á borðið. En við erum í stjórnmálum til þess að hafa áhrif og munum að sjálfsögðu meta það eftir kosningar hvernig við höfum mest áhrif. Stærsta málið er að fella ríkisstjórnina og koma á vinstrisinnaðri félagshyggjustjórn,“ segir Guðmundur Auðunsson.

Hér er viðtalið við Guðmund.