N4 logo

Stjórnarskráin er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi

Stjórnarskráin er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi
Einar Aðalsteinn Brynjólfsson skipar efsta sæti á lista Pírata í Norðausturkjördæmi.

N4 ritstjórn22.09.2021

„Við Píratar teljum að öll okkar mál séu byggðamál, rétt eins og við viljum meina að öll mál eigi að vera loftslagsmál, þau á að hafa í bakgrunni og til hliðsjónar, alveg sama hvaða mál er verið að ræða. Þegar ég segi að öll mál séu byggðamál þá er það einfaldlega þannig að það á sér stað einhvers konar sjálfkrafa til suðvesturhornsins á öllu sem heitir þjónusta við almenning. Það er það sem ég á við þegar ég segi að öll mál séu byggðamál. Þetta er eins og svelgur og það rennur allt í þessa átt,“ segir Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi.

Einar var kjörinn á þing í alþingiskosningunum árið 2016 en í kosningunum ári síðar náði hann ekki kjöri. Fyrir þessar alþingiskosningar lenti hann í efsta sætinu í prófkjöri og skipar því oddvitasæti á lista Pírata í Norðausturkjördæmi þriðju alþingiskosningarnar í röð.

Einar segir að menntamál séu sér sérstaklega hugleikin, enda hafi hann starfað að þeim málaflokki lengi sem framhaldsskólakennari og háskólastundakennari. Akureyringar séu vel settir með Háskólann á Akureyri en úrbóta sé þörf á Austurlandi. „Við Píratar erum áhugasamir um að komið verði á fót háskólasetri á Austurlandi, núna er þar rannsóknasetur en ég er að tala um einhvers konar kennslumiðstöð þar sem nemendur geti komið saman í lærdómssamfélagi og þá er ég að tala um að allir ríkisháskólar eigi að sjálfsögðu að standa að þessu. Ég hef oft gagnrýnt Háskóla Íslands í þessu máli, hann dregur lappirnar mjög og það er eiginlega skammarlegt. Hann býður eiginlega ekki upp á neitt fjarnám og það er algjörlega galið. Þar er uppi sú krafa að allir þeir sem hyggist stunda þar nám verði að flytja suður yfir heiðar og búa þar, það er fólkið sem kemur ekki aftur. Háskólinn á Akureyri er hins vegar algjörlega til fyrirmyndar með þetta. Hann býður upp á sitt sveigjanlega nám og það þýðir að fólk getur stundað sitt nám í heimabyggð.“

Einar segir það ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi Pírata að þjóðinni verði sett ný stjórnarskrá. „Við þrengjum kostina og við höfum áður þrengt þá, til dæmis með því að lýsa því yfir að við munum ekki taka þátt í stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum. Við viljum allt eða ekkert, það er bara þannig. Við erum á þeirri skoðun að stærsta umbótamál í íslenskri stjórnmálasögu sé að taka upp nýja stjórnarskrá. Við erum alveg ósmeyk við að setja þetta skilyrði. Við erum svo sannarlega tilbúnir að taka þátt í stjórnarsamstarfi en þetta er stóra málið, þetta er það sem við höfum barist fyrir frá stofnun,“ segir Einar Aðalsteinn Brynjólfsson.

Hér er viðtalið við Einar.