Stólar á eigin smekk í fataframleiðslunni

Stólar á eigin smekk í fataframleiðslunni
Kristín Ósk í handlituðum kjól.

N4 ritstjórn21.07.2021

Kristín Ósk Halldórsdóttir opnaði verslunina KrÓsk á Akranesi fyrir rétt rúmlega hálfu ári síðan. Þar selur hún fatnað sem hún hannar sjálf og framleiðir, til að mynda handlitaða kjóla og ýmsan fatnað úr prjónaefni.

„Viðtökurnar hafa verið rosalega góðar. Skagamenn hafa tekið mér mjög vel og svo hefur fólk hér í kring, úr Reykjavík og víðar, verið duglegt við að gera sér dagsferð hingað, aðeins að breyta til, kíkja hingað og svo kannski á Langasandinn í leiðinni," segir Kristín sem var í viðtali í þættinum Að vestan nýlega. Þar sagði hún frá fyrirtækinu en hún sjálf er þar eitt í öllu en fær þó dygga hjálp frá dóttur sinni.

krosk.JPG

Stór hluti viðskiptavina KrÓsk versla í gegnum netverslunina.

Handlitaðir kjóla

Galdurinn að góðri flík segir Kristín að liggi í því að manni líði vel í flíkinni og svo þarf hún líka að vera klæðileg. „Mér finnst mikið atriði að mér finnist flíkin falleg því þá finnst mér gaman að búa hana til. Og það yfirleitt virkar best. Að gera eitthvað sem ég held að öðrum þyki fallegt, það virkar ekki," segir Kristín sem stólar á eigin smekk í framleiðslunni. Handlitaðir kjólar hafa meðal annars vakið athygli í versluninni. „Ég sauma kjólana flestalla fyrst og svo handlita ég hvern og einn. Þó þeir séu svipaðir þá er enginn nákvæmlega eins."

Prjónaefnin prjónuð eftir hennar mynstri

Kristín teiknar sjálf mynstrin í prjónaefnunum sem hún nota í flíkurnar en efnið lætur hún prjóna fyrir sig á Íslandi. Þá reynir hún að nýta efnið eins vel og hún getur með því að búa til húfur, vettlinga og trefla úr því efni sem eftir stendur þegar hún er að sauma peysur. Þannig fer ekkert til spillis og hún nær að halda verðinu á peysunum niðri.

Viðtalið við Kristínu má sjá í heild sinni hér fyrir neðan en vörur KrÓsk má skoða betur í vefversluninni www.krosk.is