Stóra málið er að jafna kjörin og stöðu fólks í landinu

Stóra málið er að jafna kjörin og stöðu fólks í landinu
Hilda Jana Gísladóttir skipar annað sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.

N4 ritstjórn14.09.2021

„Það sem skiptir miklu máli er að velta því fyrir okkur hvert svæðisbundið hlutverk Akureyrar á að vera í byggðastefnu á Íslandi. Hvaða opinbera þjónusta á að vera hér og fyrir hverja? Tillögurnar sem þessi starfshópur leggur fram er m.a. að Sjúkrahúsið á Akureyri verði háskólasjúkrahús, lögð verði áhersla á millilandaflug um Akureyrarflugvöll og að það sé fjölbreytt námsframboð við Háskólann á Akureyri. Það hefur aldrei verið tekin stefnumótandi ákvörðun um það að Akureyri eigi með öðrum hætti en aðrir þéttbýliskjarnar að gegna einhverju svæðisbundnu hlutverki. Við ákváðum á sínum tíma að Reykjavík yrði borg með tilteknar skyldur og ábyrgð og við höfum séð hvernig það hefur gagnast öllu suðvesturhorninu þar sem nú búa áttatíu prósent landsmanna. Öll sveitarfélögin hér á Norðurlandi eystra ákváðu sameiginlega í Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra að Akureyri fengi eitthvert hlutverk,“ segir Hilda Jana Gísladóttir, sem skipar annað sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.

Hilda Jana hafði lengi starfað við fjölmiðla áður en hún skellti sér í bæjarpólitíkina á Akureyri fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar. Hún hefur setið í bæjarstjórn Akureyrar á kjörtímabilinu og er m.a. fyrir hönd bæjarins formaður Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.

„Stóra málið er að jafna kjörin og stöðu fólks í landinu. Það er ekki boðlegt að kjaragliðnunin milli lægstu launa og öryrkja og aldraðra sé að verða hátt í 85 þúsund. Það er ekki í lagi. Ég myndi gjarnan vilja sjá að það yrði aukið fjármagn inn í sóknaráætlanir landshlutanna vegna þess að ég hef gríðarlega mikla trú á því að treysta heimafólki skipti máli. Mér finnst oft vera gerð mistök þegar á að koma með einhverjar töfraríkislausnir beint úr höfuðborginni, dreift út á land. Í staðinn fyrir að segja: hvernig sjáið þið fyrir ykkur sóknina? Ég myndi vilja sjá list- og verknám við Háskólann á Akureyri og að lokið verði við legudeild við Sjúkrahúsið á Akureyri og það fái heimild til að vera háskólasjúkrahús.“

Hér er viðtalið við Hildu Jönu.