N4 logo

Stundum flókið að vera alþingismaður í Norðvesturkjördæmi

Stundum flókið að vera alþingismaður í Norðvesturkjördæmi
Haraldur Benediktsson skipar annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

N4 ritstjórn16.09.2021

„Hluti af ástæðunni fyrir því að ég ákvað að halda áfram í stjórnmálum er að ég trúi að það sé hægt að snúa við þróuninni í sauðfjárræktinni. Sem formaður Bændasamtakanna og seinna þingmaður hef ég lengi talað fyrir því að við breytum undirstöðum undir landbúnaðinn þannig að hann geti aftur vaxið og dafnað. Á þessu kjörtímabil hefur Kristján Þór Júlíusson, sem mér hefur oft fundist sitja undir ámæli fyrir sín störf, skilað verki í fyrsta skipti á Íslandi þar sem er mótuð heildstæð landbúnaðarstefna. Í henni er aðgerðaáætlun eða tillögur að aðgerðum sem m.a. snúa að sauðfjárræktinni. Starfsumhverfi afurðastöðva þarf að fá eðlilega endurskoðun og uppfærslu. Við höfum gjörbreytt búvörumarkaði á Íslandi, með meiri opnun og meiri innflutningi erum við ekki lengur með sama lokaða búvörumarkaðinn og við vorum með lengst af. Við erum komin í allt aðra samkeppni. Þá þurfa þessi mikilvægu fyrirtæki sem afurðastöðvarnar eru, hvort sem það er í mjólk eða kjöti, að búa við sömu starfsskilyrði og sama lagaramma og margfalt stærri fyrirtæki sem þau eru að keppa við. Inni í þessari stefnumörkun er m.a. verið að tala um uppfærslu á því lagaumhverfi. Ég er bjartsýnn á að með markvissri vinnu breytum við undirstöðunum undir afurðastöðvunum, það er fyrsta verkið í því að getum aftur farið að skila hærra afurðaverði til sauðfjárbænda,“ segir Haraldur Benediktsson, sem skipar annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Haraldur segist styðja heilshugar þá uppbyggingu sem hafi átt sér stað í fiskeldi á Vestfjörðum. Hann segir um að ræða stóriðju Vestfirðinga. „Ég hvet fólk til þess að fara vestur á firði og sjá þá umbreytingu sem er að verða á þessum samfélögum. Þar má kannski helst gagnrýna að við erum á eftir að fylgja þessari miklu atvinnuuppbyggingu eftir með samgöngukerfinu og slíkum þáttum. Við erum að vinna þetta með ábyrgum hætti. Við fórum þessa áhættumatsleið, sem er að vakta umhverfið og stilla í raun og veru framleiðsluna, stækkun eldisins, á móti því að við séum ekki að taka áhættu með umhverfið. Það er í mínum huga algjörgt lím í þessari uppbyggingu að við séum að virða bæði sjónarmið, þ.e.a.s. þeirra sem vilja sækja fram og efla atvinnu og verðmætasköpun og þeirra sem halda síðan á gjöfulum, verðmætum veiðiám sem eru í mínu kjördæmi ein megin byggðastoðin í flestum héruðum þess. Það er stundum flókið að vera alþingismaður í Norðvesturkjördæmi með þessa hagsmuni en við höfum fundið okkur þarna leið sem ég trúi á að báðir aðilar virði sjónarmið hvors annars og þá sé umhverfisþátturinn ekki það vandamál sem stundum er gert úr, segir Haraldur Benediktsson.

Hér er viðtalið við Harald.