Innanlands sumarið lítur vel út fyrir norðan

Innanlands sumarið lítur vel út fyrir norðan
Ertu klár fyrir ferðalag innanlands í sumar? Mynd: unsplash.com/Chingiz Abdullin

N4 ritstjórn29.04.2021

Það lítur út fyrir að Íslendingar muni ferðist að mestu innanlands í sumar, annað árið í röð. Ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi eru bjartsýnir á sumarið og þó margir innlendir gestir hafi komið norður síðasta sumar er af nógu að taka og margt spennandi í boði í landshlutanum. Nýr vefur sem bendir á nýja staði á Norðurlandi fer í loftið um mánaðarmótin.

„Við sjáum fyrir okkur mjög gott sumar á innanlandsmarkaði. Í fyrra var mjög vinsælt að koma norður," segir Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurland en hún var í viðtalið í Föstudagsþættinum á N4 ásamt Viggó Jónssyni sem er formaður stjórnar Markaðsstofu Norðurlands. Bæði voru þau mjög bjartsýn á sumarið og þó margir Íslendingar hafi heimsótt Norðurland í fyrra þá sé ekki ólíklegt að þeir gestir vilji koma aftur og skoða meira.

Mikl uppbygging, fjölbreytt afþreying

Viggó sagði frá því að þegar fólk neyddist til þess að skoða sitt nærumhverfi í fyrra þar sem utanlandsferðir voru ekki í boði hafi margir áttað sig á hversu mikil uppbygging hafi átt sér stað hér á landi og hversu fjölbreytt þjónusta er í boði innanlands. „Kannski höfum við vaknað upp við það að við eigum fullt af stöðum sem við höfum ekki gert okkur grein fyrir og förum að kíkja aðeins yfir lækinn og sjá hvað við höfum upp á að bjóða." Markaðsstofa Norðurlands hefur verið að undirbúa sig fyrir sumarið m.a. með því að uppfæra vefinn nordurland.is . Mun nýr vefur opna þann 1. maí, með fullt af nýjum tillögum að nýjum stöðum á Norðurlandi til að upplifa.