N4 logo

Sundabraut sem allra fyrst!

Sundabraut sem allra fyrst!
Eyjólfur Ármannsson skipar efsta sæti á lista Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi.

N4 ritstjórn15.09.2021

„Ég hef áhuga á þeim málefnum sem flokkurinn stendur fyrir, sem er baráttan gegn fátækt. Það eru fátæktargildrur í almannatryggingakerfinu og það eru fyrst og fremst þessar tekjuskerðingar. Við viljum afnema þær og tryggja lágmarks framfærslu, þrjú hundruð og fimmtíu þúsund krónur á mánuði, skerðingar- og skattfrjálst. Ef ellilífeyrisþegar vinna fyrir meira en hundrað þúsund kall á mánuði fá þeir skerðingar og það sama með öryrkja. Lífeyriskerfið í dag er þriggja stoða kerfi; almannatryggingar, lífeyrissjóðirnir og séreignarsparnaður. Fyrsta stoðin er einfaldlega ekki að virka,” segir Eyjólfur Ármannsson, sem skipar efsta sæti á lista Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi.

Eyjólfur segir að ein af leiðunum sem Flokkur fólksins leggi til í því skyni að ríkissjóður afli peninga til þess að koma til móts við afnám tekjuskerðinga ellilífeyrisþega og öryrkja sé að hækka bankaskattinn. „Frá Hruni hafa bankarnir á Íslandi skilað hagnaði upp á 900 milljarða króna. Þeir soga peninga út úr samfélaginu og við teljum að það eigi að skattleggja það. Við teljum líka að auðlindarentan af kvótakerfinu sé allt of lág, þar þyrfti að skattleggja út frá hagnaði fyrirtækjanna eða hafa uppboð á kvóta. En kjarnamálið hjá okkur í kvótakerfinu er að við viljum gefa handfæraveiðar frjálsar.”

Eyjólfur leggur áherslu á að lagning Sundabrautar sé íbúum í Norðvesturkjördæmi mjög mikilvæg, t.d. fyrir Skagamenn. Hún myndi stytta vegalengdina til höfuðborgarinnar um hálftíma. „Þetta er þjóðhagslega hagkvæmasta vegaframkvæmdin í landinu. Ég vil að þetta verði gert sem allra, allra fyrst og veggjald kæmi alveg til greina. Hvalfjarðarmódelið gekk mjög vel og ef það yrði til þess að farið yrði strax í framkvæmdina þyrfti að skoða einhvers konar módel eins og í Hvalfirði. En það má fjármagna þetta með ýmsum hætti. Það má t.d. gefa út skuldabréf og fjármagna þetta innanlands. Ef á að fara í einhverja vegaframkvæmd, þá er það þessi framkvæmd,” segir Eyjólfur Ármannsson.

Hér er viðtalið við Eyjólf.