Syngur sig og dansar til Chicago á Akureyri

Syngur sig og dansar til Chicago á Akureyri
Jóhanna Guðrún fetar sig inn á nýja braut með því að taka þátt í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á söngleiknum Chicago. Mynd: Facebooksíða Jóhönnu Guðrúnar

N4 ritstjórn17.09.2022

Mikil gleði og eftirvænting er í loftinu hjá Leikfélagi Akureyrar yfir því að sigla inn í nýtt covidlaust leikár. Aðalverk vetrarins er söngleikurinn Chicago sem frumsýndur verður í lok janúar.  Jóhanna Guðrún fer með eitt aðalhlutverkið í sýningunni og fetar sig þar með inn á nýja braut. 

Söngleikurinn Chicago eftir John Kander, Fred Ebb og Bob Fosse er einn þekktasti og vinsælasti söngleikur allra tíma og hefur unnið til fjölda verðlauna. Sagan gerist á þriðja áratug síðustu aldar í hinni spilltu og lostafullu Chicagoborg þar sem svik og prettir eru daglegt brauð. Glæpakvendin Velma Kelly og Roxy Hart berjast um athygli fjölmiðla í von um frægð og frama og þrátt fyrir að vera báðar undir lás þá svífas þær einskis til að slá í gegn. Chicago er meinfyndin og skemmtileg ádeila á spillingu og yfirborðsmennsku fjölmiðla og réttarkerfisins. Hann iðar af fjöri, hispursleysi og húmor ásamt ógleymanlegri tónlist og dansatriðum sem kitla öll skynfæri.

 

Spennandi verkefni fyrir Jóhönnu Guðrúnu

Chicago söngleikurinn verður sýndur í Samkomuhúsinu á Akureyri en leikstjóri verksins er Marta Nordal. Frumsýningardagur er 27. janúr. Aðalhlutverk verða í höndum Jóhönnu Guðrúnar, Þórdísar Björgu Þorfinnsdóttur, Björvins Franz og Margrétar Eirar.  Jóhanna Guðrún hefur ekki verið hjá okkur áður og hún er að stíga í fyrsta sinn inn í full blow söngleik Þetta er spennandi verkefni fyrir hana að takast á við, að feta sig inn á nýjar lendur. Hún er tilbúin í það og mjög spennt að takast á við það og fyrir okkur er bara alveg magnað að fá svona mikinn listamann til okkar  og fá að eiga þátt í því að hún stígur inn á þetta svið,"segir Marta Nordal leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, Mak. 

 

Marta var í viðtali í Föstudagþættinum á N4 og sagði þar nánar frá leikhúsvetrinum  og má sjá viðtalið við hana í heild sinni hér fyrir neðan. 

Deila