fimmtudagur 27. janúar 2022

Sýnir kynfærahár 50 listamanna í Listasafninu á Akureyri

Sýnir kynfærahár  50 listamanna í Listasafninu á Akureyri
Erling með innrammað kynfærahár af ónefndum listamanni.

N4 ritstjórn04.12.2021

Þrjár sýningar verða opnaðar í Listasafninu á Akureyri í dag. Ein þessara sýninga inniheldur m.a. kynfærahár af 50 listamönnum .

Þrjár áhugaverðar listsýningar eru opna í Listasafninu á Akureyrí dag. Fyrst ber að nefna sýninguna Lífslínur með verkum eftir Karl Guðmunson. Karl hóf nám í Myndlistaskólanum á Akureyri fimm ára gamall undir handleiðslu Rósu Kristínar Júlíusdóttur og útskrifaðist af myndlistabraut Verkmenntaskólans á Akureyri 2007. Þau hafa unnið saman síðan. Í upphafi sem kennari og nemandi, en nú sem samstarfsfélagar í listinni. Verkin á sýningunni eru myndrænn afrakstur samtals þeirra og samleiks. Flest þeirra eru máluð á striga, gler og plexígler. Samstarfsfélagar á sýningunni eru myndlistarmennirnir Arna Valsdóttir og áðurnefnd Rósa Kristín Júlíusdóttir. Karl er mál- og hreyfihamlaður, en tekst engu að síður að koma skýrt til skila þeirri næmu, listrænu tilfinningu sem býr innra með honum. Hann var útnefndur listamaður Listar án landamæra 2015.

Kynfærahár send í pósti

Næst ber að nefna sýninguna punktur, punktur, punktur eftir Erling T. V. Klingenberg. Erling var í viðtali í Föstudagsþættinum á N4 og sagði þar frá sýningunni sem inniheldur stolna hluti frá ýmsum listamönnum og kynfærahár frá 50 myndlistamönnum. „Fyrir nokkrum vikum hafði ég samband við rúmlega 50 listamenn og bað þá um að klippa af sér eða taka af sér eitt kynhár eða fleiri og setja í umslag og senda mér eða afhenda mér. Síðan hef ég tekið þessi kynhár og rammað þau inn og sett þau í ákveðið listrænt samhengi. Ég kalla þetta hárfínar teikningar af myndlistarmönnum," segir Erling, en sjón er sögu ríkari. Þriðja sýningin sem opnar í Listasafni Akureyrar í dag er yfirlitssýning á verkum úr Listasafni ASÍ, Gjöfin til íslenzkrar alþýðu. Opnanirnar á allar þessar sýningar eru milli kl. 12 og 17.

Deila