N4 logo

Þróa lausnir fyrir bláu auðlindina

Þróa lausnir fyrir bláu auðlindina
Mynd: unsplash/Nigel Cohen

N4 ritstjórn19.09.2021

Hacking Austurland er lausnamót sem fer fram dagana 30. september – 2. október á Austurlandi. Markmiðið er að efla nýsköpunarstarf og frumkvöðlahugsun í landshlutanum.

„Þetta verkefni er nýtt af nálinni. Svona lausnamót hefur verið haldið á Suður- og Norðurlandi og nú ætlum við að fara af stað hér eystra. Þetta snýr að því að þróa lausnir tengdu bláu auðlindinni eða hafinu. Þáttakendur fá verkefni til þess að leysa á 48 klukkutímum, þannig það verður sjálfsagt mikið unnið þessa daga. Lokakynning og lausn verður svo kynnt á Tæknideginum á Neskaupsstað þann 2. október," segir Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Góð aðstoð í boði

„Þetta verkefni er ætlað þeim sem vilja skoða, prufa og gera eitthvað nýtt. Þú þarft ekki að vera komin/n með hugmynd þegar þú skráir þig til leiks. Nýsköpun á heima í öllum atvinnugeirum. Ef þú finnur einhvern möguleika á því að tengja þig hafinu þá er um að gera að skrá sig til leiks," segir Arnfríður sem sagði nánar frá lausnamótinu í þættinum Að austan á N4.

-Hvaða aðstoð fá þátttakendur?

„Þeir fá teymi frá Hacking Hekla sem að kemur austur og aðstoðar fólk við að þróa og vinna að sínum lausnum. Þannig að það er alveg sér aðstoð allan tíman, kynningar og ýmislegt fleira sem menn fá aðstoð með til þess að komast alla leið í prótótýpu af vörunni. Þetta er bara mjög spennandi verkefni og mjög þarft því ef við horfum á Austurlandið þá er gríðarlega mikið magn af fiski sem kemur á land hér. Fyrir áhugasama einstaklinga þá eru mörg tækifæri til staðar."

Teymið lykilatriði

Arnheiður segir að markmiðið sé auðvitað það að á lausnamótinu fæðist hugmyndir og viðskiptatækifæri sem verði að veruleika auk þess að efla nýsköpunarstarf og frumkvöðlahugsun í landshlutanum. „Það hafa allir eitthvað til brunns að bera og það er þannig í nýsköpunarferli að þú ert aldrei einn. Þú getur ekki farið í gegnum allt ferlið einn, teymið er lykilatriði. Það er líka svo gaman þegar ólíkir aðilar koma saman, sérstaklega þegar þeir þekkjast ekkert þá verður oft til uppspretta af alls konar spennandi hugmyndum."

Áhugasamir geta lesið sér nánar til um mótið á heimasíðu Austurbrúar eða á Facebooksíðunni Hacking Austurland.