Þvílík þjónusta! Smíðaði varahlut í bílinn á staðnum

Þvílík þjónusta! Smíðaði varahlut í bílinn á staðnum
Menn deyja ekki ráðalausir á Ólafsfirði eins og þessi reynslusaga helgarinnar sannar.

N4 ritstjórn21.02.2021

Bifreiðarverkstæðið Múlatindur á Ólafsfirði fær aldeilis lof í lófa fyrir frábæra þjónustu. Gestir frá Selfossi voru á ferð um Norðurland um helgina þegar bíllinn þeirra bilaði á Ólafsfirði. Starfsmenn Múlatinds gerðu sér lítið fyrir og smíðuðu varahlut í bílinn á staðnum og það á laugardagskvöldi.

Hermann Ólafsson. landslagsarkitekt á Selfossi sagði frá bílavandræðum sínum á Facebooksíðu sinni og lofaði þjónustu Múlatinds. N4 fékk góðfúslegt leyfi til þess að birta færsluna enda allltaf gaman að segja frá því sem vel er gert:

"Þar sem við erum að rúnta um Siglufjörð, eftir vel heppnaðan dag í Skarðsdal, varð ég var við einhver einkennileg hljóð í bílnum. Það var svo sem fátt að gera þarna að áliðnum laugardegi en hljóðið kom og fór á leiðinni úr bænum. Í miðjum Héðinsfjarðargöngum heyrðist svo smellur og rafgeymis ljós kviknaði í mælaborðinu! Þegar komið var á Ólafsfjörð var ljóst að vökvastýrið var hætt að virka! Nú var útlitið farið að dökkna og góð ráð dýr! Þar sem við keyrðum gegnum bæinn sá ég einhvern umgang fyrir utan skemmu sem virtist vera bifreiðaverkstæði. Var nú snar stoppað kl. 5.45 á laugardagskvöldi og gefið sig á tal við ungan mann sem þarna var ásamt ungri snót, og sagðist aðspurður vera bifvélavirki, um hvort hann gæti náðarsamlegast kíkt í “fjósið” og metið aðstæður? Varð hann við þessu og kom þá reyndar hið augljósa í ljós að viftureimin var farin og vélin sjóðheit og ljóst að bíllinn væri ekki að fara lengra, og góð ráð orðin rándýr.

Eftir hnitmiðaðar málaumleitanir gat þó hugsast að til væri svona reim á verkstæðinu og snara mætti henni þá á! Og bingó, lánið í þessu óláni blasti nú sem betur fer og reimin virtist passa!Þegar til átti að taka kom hins vegar í ljós að hljóðið undarlega kom úr legu sem myndi að sögn án efa rústa reiminni strax aftur!Fór nú heldur að kárna gamanið á Ólafsfirði, klukkan að ganga sjö þetta laugardagskvöld! Mögulegt væri þó hægt að kíkja á þessa kúlulegu og sjá hvort eitthvað mætti finna til... Unga stúlkan hafði nú hvatt samkvæmið en fyrr en varði bar að aðvífandi eldri mann sem bauð góða kvöldið hér! Gengu þeir nú fram og aftur félagarnir, skrúfjárn hér og járnsög þar, í dágóða stund meðan ég vafraði þarna um og hafði á orði að atgangurinn hjá þeim minnti helst á bráðavaktina! Eftir nokkra stund var tilbúin passleg lega og hafist handa við að tjasla saman sem gekk fumlaust fyrir sig hjá þeim félögum. Eina sem út af stóð var þá spurningin hvort bílvélin hefði hlotið varanlegan skaða af! Svo virðis ekki hafa verið og við komumst í tæka tíð í pizzu á Akureyri. Svona þjónustulund er langt frá því að vera sjálfsögð og lán okkar mikið í þessu annars dæmalausa óláni. Erum við því þeim félögum á bifreiða verkstæðinu Múlatindi á Ólafsfirði ævinlega þakklát."