miðvikudagur 29. desember 2021

Tók sig í gegn og aðsóknin á líkamsræktarstöðina jókst

Tók sig í gegn og aðsóknin á líkamsræktarstöðina jókst
Sigurður Scheving rekur líkamsræktarstöðina Sólarsport í Ólafsvík ásamt konu sinni Marsibil.

N4 ritstjórn05.01.2022

Sigurður Scheving, eigandi líkamsræktarstöðvarinnar Sólarsport í Ólafsvík, segir að síðasta sumar hafi verið það langbesta í 23 ára sögu líkamsræktarstöðvarinnar. Þá setti hann sjálfan sig í átak og bauð fólki að fylgjast með því hvernig covid kílóin fuku.

Sigurður Scheving segir að eftir covid hafi hans eigið líkamsform verið komið í óefni. Hann hafði fitnað í heimsfaraldrinum og hafi því ekki veitt af átaki. Hann ákvað að taka sig á og í leiðinni að nota sitt eigið átak í markaðssetningu á líkamsræktarstöðinni Sólarsport. Hann fór því að taka stutt myndbönd af framganginum og birti á Facebooksíðu stöðvarinnar. Myndböndin urðu mjög vinsæl og hvatning fyrir aðra að koma að æfa. Fyrir vikið varð síðasta sumar besta sumar í sögu Sólarsports, en yfirleitt hefur mæting á líkamsræktarstöðina dottið alveg niður á sumrin.

Ein elsta líkamsrækt landsins

Sólarsport, er ein elsta líkamsræktarstöð landsins og þegar stöðin opnaði fyrir 23 árum síðan þá var ekki sjálfgefið að líkamsræktarstöðvar fyndust úti á landi. Sigurður segir að í upphafi hafi fólki fundist þetta alveg galin hugmynd. Það var erfitt að reka líkamsræktarstöðvar í Reykjavík á þessum tíma, hvað þá úti á landi. „Mamma byrjar með ljósastofu fyrir mörgum árum síðan og var með hana í ein 14 ár. Á þessum árum var hún alltaf að tala um að hana langaði til þess að opna líkamsræktarstöð sem þekktist alls ekki úti á landi á þessum tíma og þannig fór boltinn að rúlla. Hún vildi fara út í þetta og fékk mig og Stínu systir með. Ég var bara sendur á námskeið, í body pump, eróbikk, spinning o.fl. því ég var að fara að kenna. Og ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í fyrr en ég var farinn að kenna og þjálfa," rifjar Sigurður upp og segir að móðir sín hafi haft mikinn drifkraft til þess að koma stöðinni á laggirnar á sínum tíma

Sigurður var í viðtali í þættinum að Að vestan á N4 og má sjá viðtalið við hann í heild sinni hér fyrir neðan.