Tröllaskagagöng myndu tengja Mið-Norðurland saman

Tröllaskagagöng myndu tengja Mið-Norðurland saman
Stefán Vagn Stefánsson skipar efsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

„Það er alveg sjónarmið að fara undir Öxnadalsheiði og ég ætla ekki að gera lítið úr því. Það sem ég hef hins vegar bent á með tillögunni um Tröllaskagagöngin er að við erum svo gjörn á að horfa á að stytta leiðir frá A og B til Reykjavíkur. Við megum ekki gleyma því að forsendur fyrir byggðunum hér á landsbyggðinni eru samgöngur á milli þéttbýliskjarnanna, milli samfélaganna. Með því að gera göng í gegnum Tröllaskaga erum við að tengja Mið-Norðurland saman. Vegalengdir styttust verulega og þetta yrði öruggari leið því Öxnadalsheiðin er erfiður farartálmi á veturna. Ekki aðeins erum við með þessu að stytta leiðirnar milli staða, við erum að styrkja Mið-Norðurland og það er lykilþátturinn í þessu og ástæðan fyrir því að mér og fleirum finnst þetta spennandi kostur. Við höfum óskað eftir því að farið verði í athugun á þessum göngum, bæði að fá það niðurneglt hvar þau eiga að vera og hvað þau kosta. Það þriðja sem þarf að skoða eru samfélagsleg áhrif, hvað svona göng myndu gera fyrir samfélagið hér á Norðurlandi,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Stefán Vagn hefur til hliðar við starf sitt sem yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra verið í mörg undanfarin ár oddviti framsóknarmanna í sveitarstjórn Skagafjarðar. Hann hefur á því kjörtímabili sem nú er að ljúka setið nokkrum sinnum sem varamaður á Alþingi.

Stefán er formaður flóttamannanefndar og á þeim vettvangi hefur verið í mörg horn að líta að undanförnu. „Ég hef sagt að þjóð eins og Ísland, sem stendur vel og getur lagt af mörkum fyrir þessa einstaklinga, sem eru að koma úr skelfilegum aðstæðum, eigum að koma til móts við þetta fólk og þessar þjóðir og aðstoða þær, eins og önnur lönd. Við höfum verið að taka á móti um hundrað kvótaflóttamönnum á ári og höfum verið að hækka þá tölu örlítið. Það hefur bara gengið vel. Ég held að við séum á réttri leið í þessu,“ segir Stefán Vagn Stefánsson.

Hér er viðtalið við Stefán Vagn.