Útflutningsverðmæti á sjávarafurðum í hæstu hæðum

Útflutningsverðmæti á sjávarafurðum í hæstu hæðum

N4 ritstjórn20.11.2022

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam tæplega 30 milljörðum króna í október. Það er um 12% aukning í krónum talið frá sama mánuði í fyrra, en um 17% sé leiðrétt fyrir gengisbreytingu krónunnar. Á fyrstu 10 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða þar með komið í tæpa 288 milljarða króna. Það er um 18% aukning í krónum talið frá sama tímabili í fyrra, en um 23% í erlendi mynt. Útflutningsverðmæti sjávarafurða hafa ekki verið meiri á fyrstu 10 mánuðum ársins á þessari öld.

Þetta kemur fram í fréttabréfi SFS en þar segir jafnframt að ofangreindar upplýsingar má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í október. Í þeim tölum eru verðmætin einungis birt niður á vinnsluflokka, en ekki niður á fisktegundir. Aukninguna í október má að stærstum hluta rekja til fiskimjöls. Nam útflutningsverðmæti þess um 3,6 milljörðum króna í október, sem er 85% aukning á milli ára á föstu gengi. Eins var ágætis aukning á frystum flökum (22% á föstu gengi), heilfrystum fiski (26%) og á afurðaflokknum „aðrar sjávarafurðir“ (33%), en þar undir koma loðnuhrogn við sögu. Minni breyting var á útflutningsverðmæti annarra vinnsluflokka á milli ára. 

Deila