Erlendur lúxus á Austurlandi

Erlendur lúxus á Austurlandi
Það er sérstök upplifun að heimsækja Austurland. Þrátt fyrir að náttúran sé íslensk er tilfinning margra sem heimsækja landssvæðið eins og þeir séu í útlöndum. Mynd: Álfheimar

N4 ritstjórn19.02.2021

„Sumum líður eins og þeir séu komnir til útlanda þegar þeir koma á Austurland af því þeir þekkja ekki svæðið og það kemur eiginlega allt á óvart." Þetta segir Arngrímur Viðar Ásgrímsson hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Álfheimar sem undirbýr nú annað ferðasumarið í röð þar sem helstu gestir verða Íslendingar.

Annað sumarið í röð munu Íslendingar væntanlega aðallega ferðast innanlands. Í fyrrasumar fékk fyrirtækið Álfheimar á Borgarfirði Eystra marga íslenska gesti og stefnir á að þjónusta Íslendinga vel í sumar og bjóða þeim upp á upplifun á borð við þá sem fólk er vant að fá á ferðalögum erlendis, þ.e.a.s. vá upplifun í náttúrunni í bland við þægindi og góða þjónustu. „Erlendis vill maður fá allan pakkann og njóta," segir Arngrímur en fyrirtæki hans bíður upp á lúxusgönguferðir. Þar fá þátttakendur að njóta náttúrunnar en jafnframt fyrsta flokks matar og víns á kvöldin og afslöppunar á góðu hóteli.

Íslendingar áhugasamir um landið

Arngrímur segir marga Íslendinga ekki þekkja Austurland vel og því sé upplifunin fyrir marga sem þangað koma eins og að fara til útlanda. Arngrímur var í spjalli í Föstudagsþættinum á N4 en þar kom m.a fram að áður hafði fyrirtæki hans nær eingöngu einblínt á að markaðssetja þjónustu sína fyrir erlenda ferðamenn en þegar Covid setti strik í reikninginn opnuðust augu þeirra fyrir íslenska markaðinum. Arngrímur sagði Íslendinga vera áhugasama um landið og kannski var það ekki bara Covid sem varð til þess að Íslendingar fóru að bóka sig í ferðir hans heldur hafði hann kannski ekki rænu á því að bjóða þeim upp á það áður. Viðtalið í heild sinni má sjá HÉR.