Vegamótaprinsinn með sjónvarpsþátt í vinnslu fyrir N4

Vegamótaprinsinn með sjónvarpsþátt í vinnslu fyrir N4
mynd: Facebooksíða Gísla

N4 ritstjórn20.07.2022

Matreiðslumaðurinn Gísli Ægir Ágústsson, betur þekktur sem Vegamótaprinsinn lætur víða til sín taka.  Í haust verður hann með matar- og menningarþætti á N4 og þá ætlar hann að leiða Vestfirðinga í hópferð til Tenerife í október á vegum Tenerifeferða.  

Gísli Ægir  sagði frá matar- og menningarþáttunum sem hann er að vinna að í Föstudagsþættinum á N4. Þar kom m.a fram að einn þátturinn verður tekin upp á slóðum Gísla í Uppsölum.  Ég fæ með mér gest þangað og ætla að fara svolítið ofan í söguna hans Gísla . Af hverju fór hann ekkert úr dalnum og hvernig þetta atvikaðist. Og við eldum eitthvað þjóðlegt á meðan. "

 

Kennir Lækna Tómasi að gera fiskibollur

Svo er ég að spá í að kenna Lækna Tómasi að gera fiskibollur, það er alveg kominn tími til að hann læri eitthvað maðurinn. Hann kann ýmislegt en hann kann ekki að gera fiskibollur," segir Gísli Ægir og bætir við að þættirnir verði passlega sveitó. 

Það er annars nóg að gera hjá Gísla sem er eigandi veitingastaðarins Vegamót á Bíldudal.  Við þykjumst vera heimsfræg fyrir fish and chips sem að fólk kemur alls staðar að í löngum bunum til að prófa einhverra hluta vegna. Ég hlýt að vera að gera eitthvað rétt." 

 

Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Gísla úr Föstudagsþættinum í heild sinni. 

Deila