Veiddir þú hnúðlax?

Veiddir þú hnúðlax?
Hnúðlaxar líkjast sjóbleikju við fyrstu sýn. Mynd: Vísindavefurinn

N4 ritstjórn22.07.2021

Hafrannsóknarstofnun óskar eftir sýnum úr hnúðlöxum. Biðlar stofnunin til veiðimanna sem krækja í hnúðlax í sumar að senda sér sýni af slíkum fiskum því mikilvægt sé að auka þekkingu á dreifingu, líffræði og áhrifum hnúðlaxa.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Hafrannsóknarstofnunar er best er að fá fiskana heila til rannsókna og þeir mega vera frosnir. Sýni verða þá tekin til rannsókna m.a. á vaxtarhraða, kynþroska og erfðafræði segir á heimasíðu Hafrannsóknarstofnunar.

Veidda hnúðlaxa þarf að skrá í veiðibók eins og aðra veiði þar sem fram koma upplýsingar um veiðistað, dagsetningu, lengd og þyngd. Hnúðlaxahrygnur líkjast sjóbleikju við fyrstu sýn en hnúðlax er með dröfnur í bakugga og á sporði sem nota má til aðgreiningar tegundanna.

Á Vísindavefnum má lesa nánar um hnúflax en þar kemur fram að hnúðlaxinn er líka stundum nefndur bleiklax. Stofnar hnúðlaxa eru þeir stærstu af tegundum Kyrrahafslaxa. Náttúrleg heimkynni tegundarinnar eru við strendur norðanverðs Kyrrahafs og við strendur Norður-Íshafsins.