N4 logo

Við fáum ekki réttan arð af auðlindinni

Við fáum ekki réttan arð af auðlindinni
Björgvin Egill Vídalín Arngrímsson skipar efsta sæti á lista Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

N4 ritstjórn15.09.2021

„Réttlæti, sanngirni og lýðræði og málefni eldri borgara og öryrkja eru mín áherslumál í pólitík, auk þess sem þarf að breyta kvótakerfinu, rekstrarlega séð. Við teljum að við fáum ekki réttan arð af auðlindinni. Síðan er ýmislegt sem þarf að gera í heilbrigðis-, húsnæðis- og samgöngumálum í þessu kjördæmi. Það þarf að fullgera Axarveginn, hringveg um Skriðdal, klára að fjármagna Seyðisfjarðargöngin og síðan þarf ný Múlagöng,“ segir Björgvin Egill Vídalín Arngrímsson, sem skipar efsta sæti á lista Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Björgvin er fæddur í Reykjavík en er ættaður af Vestfjörðum. Hann býr núna í Borgarfirði. Björgvin hefur meðal annars próf í atvinnuköfun, hefur skipstjórnarréttindi, er lærður rafeindavirki og loftskeytamaður. Hann hefur áður starfað í stjórnmálum fyrir Alþýðuflokkinn, Dögun og Frjálslynda flokkinn.

„Ef við horfum á menntuna í þessu kjördæmi þá þarf að byggja upp öfluga verkmenntun. Mér skilst að bæði Verkmenntaskólinn á Akureyri og í Neskaupstað þurfi að vísa frá nemendum, það er mikil aðsókn í iðnám. Staðreyndin er sú að engar verklegar framkvæmdir eru nema iðnaðarmenn séu til staðar. Varðandi nemendur sem vilja vinna með námi sínu, viljum við hækka frítekjumarkið upp í hundrað þúsund. Það gefur fimmtíu þúsund krónur á mánuði aukalega. Svo viljum við hafa skattleysismörk þrjú hundruð þúsund og afleggja allar skerðingar,“ segir Björgvin og bætir við að hann vilji sjá að Landhelgisgæslan sé með eina þyrlu staðsetta á Egilsstöðum. Slíkt væri mikið öryggi fyrir íbúa á Austurlandi,” segir Björgvin E. Vídalín Arngrímsson.

Hér er viðtalið við Björgvin.