„Við verðum að draga úr útgjöldum og auka tekjurnar“

„Við verðum að draga úr útgjöldum og auka tekjurnar“
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri/mynd n4.is

Karl Eskil Pálsson28.04.2021

Halli af rekstri Akureyrarbæjar á síðasta ári var 1,6 milljarðar króna. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri segir að reksturinn hafi verið þungur og að grípa verði til aðgerða, þannig að reksturinn verði sjálfbær. Meðal þess sem nú er talað um er að hækka gatnagerðargjöld.

Mörg sveitarfélög rekin með halla

„Já, þetta gengur ekki til lengdar, við verðum að finna leiðir til að auka tekjurnar og draga jafnframt úr útgjöldum. Heimsfaraldurinn setti eðlilega stórt strik í reikninginn hjá okkur á mörgum sviðum, rétt eins og hjá öðrum. Í velferðarþjónustunni þurftum við til dæmis að manna vaktir með öðrum hætti, sem kostaði verulegar fjárhæðir og sömu sögu er að segja um slökkviliðið, þar þurfti að breyta vaktafyrirkomulaginu. Hafnarsamlagið var rekið með tapi, þar sem engin skemmtiferðaskip komu til okkar á síðasta ári, svo ég nefni nokkur dæmi. Akureyrarbær birtir ársuppgjörið tiltölulega snemma miðað við önnur sveitarfélög en ég veit að mörg þeirra voru rekin með umtalsverðum halla í fyrra.“

Ýmsar skipulagsbreytingar í farvatninu

Útsvarstekjur bæjarins hækkuðu í fyrra en útsvarið er einn mikilvægasti tekjustofn sveitarfélaga. Í umræðum um ársreikningana í bæjarstjórn ræddu bæjarfulltrúar nauðsyn þess að skera upp í rekstrinum.

„Já, sem betur fer hækkaði útsvarið, sem er ákveðið hlutfall af launatekjum fólks auk þess sem íbúum fjölgaði á árinu, þótt ég hefði viljað sjá örari fjölgun. Í fyrra hækkuðu laun fólks mikið, sem skýrir hækkunina að stórum hluta. Stóra verkefnið okkar er að hagræða í rekstrinum og snúa dæminu við, við getum ekki látið útgjöldin aukast án þess að tekjur komi á móti. Við erum þegar byrjuð, meðal annars með því að skila til ríkisins rekstri öldrunarheimilanna, sem hefur verið þungur bakggi á sveitarfélaginu. Áfram ætlum við að halda á sömu braut, til dæmis með því að útvista rekstrinum í Hlíðarfjalli og sömuleiðis erum við að skoða ýmsar skipulagsbreytingar í stjórnsýslunni. Við verðum að auka kostnaðarvitund og fækka starfsfólki, þannig að það er ýmislegt í farvatninu hjá okkur.“

Straumlínulaga reksturinn

Starfsfólki bæjarins hefur fjölgað um rúmlega eitthundrað á síðustu tíu árum. Ásthildur segir að skýringin sé aðallega vegna fjölgunar í velferðarþjónustu og í skólakerfinu, enda leggi bærinn áherslu á góða þjónustu á þessum sviðum. Í miðlægri starfsemi hafi starfsfólki fækkað.

„Við höfum þegar sameinað búsetu- og fjölskyldusvið og aðrar breytingar eru í undirbúningi með það að markmiði að straumlínulaga reksturinn og lækka þar með kostnaðinn. Það er hins vegar ekki nóg að lækka kostnaðinn, við verðum að auka tekjurnar.“

Hækkun gatnagerðargjalda í athugun

Á bæjarstjórnarfundinum var meðal annars talað um að hækka gatnagerðargjöldin.

„Já, þetta er í skoðun. Við höfum ekki farið út í að selja byggingaréttinn, líkt og önnur sambærileg sveitarfélög hafa gert. Gatnagerðargjöldin vegna fjölbýlishúsa voru hækkuð í fyrra og ég get bara sagt að það er ýmislegt í skoðun í þessum efnum hjá okkur.“

Norðurorka ekki til sölu

Kemur til greina að selja Norðurorku, orkufyrirtæki bæjarins ?

„Nei, það kemur ekki til greina, Norðurorka er ekki til sölu,“ segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri.

Ítarlega verður rætt við Ásthildi í þættinum Landsbyggðir á N4, nk. fimmtudagskvöld, klukkan 20:30