N4 logo

Vil fara inn á þing til að geta breytt einhverju

Vil fara inn á þing til að geta breytt einhverju
Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi.

N4 ritstjórn22.09.2021

„Með því að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum segjum við að við hverja þá ákvörðun sem við tökum séum við að horfa til heildarinnar frekar en einhverra ákveðinna hópa. „Það hefur lengi loðað við þetta samfélag að klíkuskapur og frændhygli hefur stjórnað ferðinni og við viljum breyta því. Við berum ábyrgð á því að allir fái notið þeirra gæða sem samfélagið býður upp á og mig langar til þess að vera þátttakandi í því,“ segir Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi. Guðbrandur hefur lengi verið í sveitarstjórnarmálum í Reykjanesbæ en stígur nú í fyrsta skipti inn í landsmálin.

Guðbrandur segir að staða heilsugæslunnar víða um land sé ekki í nægilega góðum málum. Þetta þekki hann vel úr sinni heimabyggð á Suðurnesjum. Grunnþjónustan, heilsugæslan, hafi verið í erfiðleikum, erfitt sé að fá lækna til starfa og því eigi fólk víða í erfiðleikum með að fá tíma hjá læknum. „Þetta er eitthvað sem ég vil setja í algjöran forgang. Þetta er sýnu verst á Suðurnesjum og hefur verið svo árum skiptir. Ég vil og mun leggja áherslu á að úr þessu verði bætt. Til þess er ýmislegt hægt að gera en fyrst og fremst þarf fjármagn. Á Suðurnesjum búum við við það að á milli fjögur og fimm þúsund íbúar hafa leitað sér lækninga á höfuðborgarsvæðinu, hafa valið það að keyra Reykjanesbrautina og skráð sig á heilsugæslustöðvar í Reykjavík. Ef við næðum til baka öllum þessum fjögur til fimm þúsund manns sem eru að keyra Reykjanesbrautina á sjálfstætt reknar heilsugæslustöðvar þyrfti ekki að leggja út meiri pening, heldur myndi fjármagnið fylgja fólkinu sem þarf á þjónustunni að halda til Suðurnesja. Ég vil leggja á það áherslu að það eru til staðar einstaklingar sem vilja fara í rekstur á sjálfstætt rekinni heilsugæslu á Suðurnesjum og þangað vil ég horfa. Við höfum horft upp á það í áratugi að þjónustan er ekki eins og hún á að vera á Suðurnesjum, það er búið að boða það að byggja nýja heilsugæslustöð en við vitum ekkert hvenær hún kemur, hvort hún kemur eftir tvö, þrjú, fjögur eða fimm ár. En það eru orðin þrjátíu þúsund manns á svæðinu og miðað við að hver heilsugæslustöð geti tekið við um það bil ellefu þúsund manns þurfum við tvær heilsugæslustöðvar til viðbótar við það sem fyrir er. Ég horfi á Norðurlöndin sem fyrirmynd. Stærstur hluti af heilsugæslustöðvum í Stokkhólmi er einkerekinn. Svíar hafa gengið mun lengra í þessu en við og horfa til þess að blandað kerfi sé best,“ segir Guðbrandur.

Viðreisn hefur talað fyrir því að tengja íslensku krónuna við evru og að lokið verði við aðildarsamning við ESB sem síðan yrði lagður í dóm kjósenda. „Ég lít þannig á að ef maður fer í pólitík þá á að þora að leggja fram eitthvað sem maður trúir á að sé til hagsbóta fyrir samfélagið. Ég hef séð löndin i kringum okkur, í Evrópu, hafa hag að því að vera í Evrópusambandinu og ég er algjörlega sannfærður um að okkur er best borgið í Evrópusambandinu. Leiðin þangað, aftur á móti, getur tekið tíma. Það þarf að breyta stjórnarskrá til þess að fara inn í Evrópusambandið. Viðreisn segir að við viljum fara inn í ESB en við viljum láta þjóðina ráða því. Við vorum auðvitað í samningum við Evrópusambandið á sínum tíma þegar Vinstri græn stoppuðu það og Össur Skarphéðinsson gaf eftir. Nú vil ég að þjóðin ákveði hvort við eigum að halda áfram eða ekki og Viðreisn er þar. Leggjum það fyrir þjóðina til ákvörðunar hvort við höldum áfram og förum inn í Evrópusambandið eða ekki. Þangað til erum við að horfa á að tengja krónuna við evru og það er fyrsta markmið okkar því með því verður verulegur afkomubati fyrir heimilin,“ segir Guðbrandur.

Hann segist vilja sjá frjálslynda miðjustjórn eftir kosningar. „Inn í slíka stjórn myndi ég vilja sjá Viðreisn, Pírata og Samfylkingu. Síðan, miðað við hvernig þetta mun verkast, yrðu það annað hvort Framsókn eða Vinstri græn. Ég vil fara inn á þing til að hafa völd og geta breytt einhverju. Það skiptir auðvitað máli fyrir Viðreisn að geta breytt í samræmi við það sem flokkurinn vill standa fyrir,“ segir Guðbrandur Einarsson.

Hér er viðtalið við Guðbrand.