föstudagur 28. janúar 2022

Viðhaldsvinna er í gangi - þökkum biðlundina og afsökum alla hnökra sem geta komið upp tímabundið :)

Villi kveður, prestur tekur sæti hans

Villi kveður, prestur tekur sæti hans
Villi í Föstudagsþættinum ætlar að snúa sér alfarið að leikhúslífinu en presturinn Oddur Bjarni Þorkelsson verður nýr umsjónarmaður þáttarins. Föstudagsþátturinn er einn elsti þáttur N4 sjónvarpsstöðvarinnar.

N4 ritstjórn28.01.2022

Leikarinn Vilhjálmur B. Bragason, sem verið hefur umsjónarmaður Föstudagsþáttarins á N4, hefur sagt skilið við stöðina vegna anna í leikhúsinu. Presturinn Oddur Bjarni Þorkelsson kemur í hans stað og boðar hann breytingar á þættinum.

„Þetta er bara mjög spennandi. Ég er að fara að gera eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég hef oft komið í þennan þátt sem viðmælandi og ég fer augljóslega ekki í fötin hans Villa. Þátturinn mun taka einhverjum breytingum. Framvindan í þættinum verður önnur , það koma ný föst innslög og við breytum aðeins sett-öppinu," segir Oddur Bjarni Þorkelsson, sem er nýr umsjónarmaður Föstudagsþáttarins á N4.

Annar presturinn til að stíga í hlutverk þáttastjórnanda

Oddur Bjarni er áhorfendum N4 ekki alveg ókunnugur því hann er einn aðalleikarinn í nýju leiknu barnaefni, Himinlifandi sem nýlega hóf göngu sína á stöðinni. Annars starfar Oddur Bjarni sem prestur og eins er hann einn af meðlimum hljómsveitarinnar Ljótu hálfvitarnir. Þá er gaman að segja frá því að Oddur er ekki fyrsti presturinn sem sest í þáttastjórnandastólinn á N4 því presturinn Hildur Eir var lengi með þætti á stöðinni sem hétu Milli himins og jarðar.

Nóg að gera í leikhúsinu

Villi hverfur sáttur frá sjónvarpsstöðinni eftir tíma sem verið hefur gjöfull og góður. „Það er bara svo mikið framundan hjá mér í leikhúsinu þannig ég sá mér ekki annarra kosta völ. Við erum að klára að sýna Fullorðin í Hofi. Í beinu framhaldi af því erum við að fara að æfa Skuggasvein upp í Samkomuhúsi og svo er sýningin Fullorðin í leið í Þjóðleikhúsið í mars og apríl."

Þeir Villi og Oddur spjölluðu saman um þessar breytingar í síðasta Föstudagsþætti og má sjá það spjall í myndbandinu hér fyrir neðan. Fyrsti Föstudagsþátturinn sem Oddur Bjarni stýrir verður sýndur þann 22. október.

Deila