Vona að hálendisþjóðgarður verði að veruleika

Vona að hálendisþjóðgarður verði að veruleika
Hólmfríður Árnadóttir skipar efsta sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs í Suðurkjördæmi.

„Þetta snýst mikið um byggðajafnrétti, sextán ára gömul börn eiga að geta stundað framhaldsnám í sínum heimahögum og það á að vera allt í boði. Þetta er hægt, Covid kenndi okkur það. Við þurfum líka að huga að námslengdinni, mér finnst við þurfa að skoða það með framhaldsskólann, eru þessi þrjú ár það sem koma skal? Nemendum finnst þetta mikið á stuttum tíma. Það eru nemendurnir sem námið snýst um og þá finnst mér að eigi að hlusta á þeirra raddir og aðlaga námið að þeim. Það er brotthvarf úr framhaldsskóla og það er uppsafnaður vandi hvað varðar geðheilbrigðismál hjá nemendum á framhaldsskólaaldri. Svo þurfum við líka að horfa til þeirra sem hverfa frá námi en vilja síðan koma aftur. Þá þurfa skólarnir að geta tekið á móti þeim. Þetta þarf að endurskoða,“ segir Hólmfríður Árnadóttir, oddviti Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.

Hólmfríður er fædd á Grenivík. Hún sótti framhaldsskóla á Akureyri og fór síðan í Háskólann á Akureyri. Frá 2016 hefur hún verið skólastjóri grunnskólans í Sandgerði - Sandgerðisskóla. Hólmfríður sigraði forval VG í Suðurkjördæmi og kom árangur hennar mörgum á óvart því út á við hafði hún ekki verið mikið áberandi í umræðunni en engu að síður hefur hún starfað lengi innan raða VG, verið flokksbundin síðan 2009.

Eitt af stóru málum VG á þessu kjörtímabili er hálendisþjóðgarður, sem náði ekki fram að ganga. „Hálendisþjóðgarður er eitthvað sem við viljum sjá verða að veruleika. Mögulega var ekki nægur tími til þess að kynna frumvarpið og koma því betur á framfæri við þá sem hlut eiga að máli. En þetta er okkar hjartans mál og við viljum sjá að þetta fari í gegn á næsta þingi. Við eigum eftir að kynna þetta enn betur og koma enn betur á framfæri því sem hálendisþjóðgarður ber með sér. Við viljum öll vera sjálfbær þannig að við skilum landinu okkar til komandi kynslóða á jákvæðan hátt. Ég vona að hálendisþjóðgarður verði að veruleika því það er gríðarlegt réttindamál fyrir okkur og komandi kynslóðir,“ segir Hólmfríður Árnadóttir.

Hér er viðtalið við Hólmfríði.