Auglýsing
Auglýsing

N4 ritstjórn | 16.09.2021

Stundum flókið að vera alþingismaður í Norðvesturkjördæmi

„Hluti af ástæðunni fyrir því að ég ákvað að halda áfram í stjórnmálum er að ég trúi að það sé hægt að snúa við þróuninni í sauðfjárræktinni. Sem formaður Bændasamtakanna og seinna þingmaður hef ég lengi talað fyrir því að við breytum undirstöðum undir landbúnaðinn þannig að hann geti aftur vaxið og dafnað. Á þessu kjörtímabil hefur Kristján Þór Júlíusson, sem mér hefur oft fundist sitja undir ámæli fyrir sín störf, skilað verki í fyrsta skipti á Íslandi þar sem er mótuð heildstæð landbúnaðarstefna. Í henni er aðgerðaáætlun eða tillögur að aðgerðum sem m.a. snúa að sauðfjárræktinni. Starfsumhverfi afurðastöðva þarf að fá eðlilega endurskoðun og uppfærslu. Við höfum gjörbreytt búvörumarkaði á Íslandi, með meiri opnun og meiri innflutningi erum við ekki lengur með sama lokaða búvörumarkaðinn og við vorum með lengst af. Við erum komin í allt aðra samkeppni. Þá þurfa þessi mikilvægu fyrirtæki sem afurðastöðvarnar eru, hvort sem það er í mjólk eða kjöti, að búa við sömu starfsskilyrði og sama lagaramma og margfalt stærri fyrirtæki sem þau eru að keppa við. Inni í þessari stefnumörkun er m.a. verið að tala um uppfærslu á því lagaumhverfi. Ég er bjartsýnn á að með markvissri vinnu breytum við undirstöðunum undir afurðastöðvunum, það er fyrsta verkið í því að getum aftur farið að skila hærra afurðaverði til sauðfjárbænda,“ segir Haraldur Benediktsson, sem skipar annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.