N4 logo
Auglýsing
Auglýsing

N4 ritstjórn | 21.09.2021

Hefur forgang að skera fólk úr fátæktarfjötrum

„Þegar Inga Sæland, Ólafsfirðingur, hafði samband við mig og brýndi mig til þess að nýta, við skulum segja, málafylgjureynslu mína, þá gat ég ekki sagt nei. Inga lagði spilin á borðið og sýndi mér þau afleitu kjör sem þúsundir og tugþúsundir Íslendinga þurfa að horfast í augu við og ég gat ekki sagt annað en að „ég skal koma með þér í þessa vegferð“ og ég geri það af heilum hug. Lykilmál Flokks fólksins gengur út á að útrýma fátækt, að fólkið skuli vera í fyrirrúmi og svo allt hitt, með fullri virðingu fyrir loftslags- og umhverfismálum, sem eru auðvitað mín mál í gegnum Græna herinn, Umhverfisvini og Íslandshreyfingu. En forgangurinn er að skera fólkið úr fátæktarfjötrum. Eldra fólk og fólk sem hefur lent í áföllum og örorku af einhverjum toga getur ekki dregið fram lífið af þeim peningum sem lagðir eru til á mánuði hverjum af almannatryggingakerfinu. Við erum langt á eftir nágrannalöndunum í þessum efnum. Fyrir eina ríkustu þjóð í heimi, með allar þessar dýrmætu auðlindir, er þetta þjóðarskömm. Það er ekki boðlegt að láta þetta spyrjast um okkur, enda er eiginlega búið að tala um þetta af öllum flokkum 2013, 2017 og núna 2021. Það virðast allir vera sammála stefnu Flokks fólksins. Ef ég fer inn ætla ég að fylgja þessu eftir af fullum þunga,“ segir Jakob Frímann Magnússon, sem skipar efsta sæti á lista Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi.

Þorpin hafa verið skilin eftir vítamínslaus

„Ég á ágæta samleið með Frjálslynda lýðræðisflokknum, hann hefur á stefnuskránni það sem mér finnst þurfa að gera breytingar á fyrir þjóðina. Hún býr við það í dag að horfa á eftir sinni auðlind fara í hendur örfárra aðila sem geta leikið sér með virðisaukakeðjuna og tekið út úr henni arð þar sem hentar þeim. Á sama tíma eru þeir að þrengja afkomu sjómanna vegna þess að það kemur ekki rétt skiptaverð, fiskurinn fer ekki á markað og myndar ekki rétt verð. Verðið er þrjátíu prósentum lægra en hjá nágrannaþjóðum okkar. Skiptaverðið er kannski ekki rétt verð heldur því við vitum ekki hvert er rétt verð þegar fiskurinn fer ekki allur á fiskmarkað. Þar á að myndast verð. Þess vegna vil ég innkalla allan kvótann og að þjóðin fái rentu af því að leigja hann til útgerðarmanna. Við þurfum ekki að stöðva eða skemma neitt fyrir neinum með því en við þurfum að taka þessa stóru ákvörðun áður en það verður of seint. Við þurfum líka að rétta litlu þorpunum út á landi hjálparhönd því það er búið að taka allt frá þeim. Þeir sem höfðu aðgengi að auðlindunum í þessum byggðarlögunum hafa bara farið með kvótann og skilið þau eftir vítamínslaus. Ég er ekki að gagnrýna stórútgerðina sem slíka, ég er að gagnrýna það stjórnkerfi sem við búum við sem stjórnmálamenn hafa sett sem leikreglur fyrir útgerðina,“ segir Magnús Guðbergsson, sem skipar efsta sæti á lista Frjálslynda lýðræðisflokksins í Suðurkjördæmi.

N4 ritstjórn | 16.09.2021

Stundum flókið að vera alþingismaður í Norðvesturkjördæmi

„Hluti af ástæðunni fyrir því að ég ákvað að halda áfram í stjórnmálum er að ég trúi að það sé hægt að snúa við þróuninni í sauðfjárræktinni. Sem formaður Bændasamtakanna og seinna þingmaður hef ég lengi talað fyrir því að við breytum undirstöðum undir landbúnaðinn þannig að hann geti aftur vaxið og dafnað. Á þessu kjörtímabil hefur Kristján Þór Júlíusson, sem mér hefur oft fundist sitja undir ámæli fyrir sín störf, skilað verki í fyrsta skipti á Íslandi þar sem er mótuð heildstæð landbúnaðarstefna. Í henni er aðgerðaáætlun eða tillögur að aðgerðum sem m.a. snúa að sauðfjárræktinni. Starfsumhverfi afurðastöðva þarf að fá eðlilega endurskoðun og uppfærslu. Við höfum gjörbreytt búvörumarkaði á Íslandi, með meiri opnun og meiri innflutningi erum við ekki lengur með sama lokaða búvörumarkaðinn og við vorum með lengst af. Við erum komin í allt aðra samkeppni. Þá þurfa þessi mikilvægu fyrirtæki sem afurðastöðvarnar eru, hvort sem það er í mjólk eða kjöti, að búa við sömu starfsskilyrði og sama lagaramma og margfalt stærri fyrirtæki sem þau eru að keppa við. Inni í þessari stefnumörkun er m.a. verið að tala um uppfærslu á því lagaumhverfi. Ég er bjartsýnn á að með markvissri vinnu breytum við undirstöðunum undir afurðastöðvunum, það er fyrsta verkið í því að getum aftur farið að skila hærra afurðaverði til sauðfjárbænda,“ segir Haraldur Benediktsson, sem skipar annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.